Fara beint í efnið

Atvik í heilbrigðisþjónustu

Óvænt alvarleg atvik

Eyðublöð fyrir tilkynningu atviks

Tilkynningarskylda vegna alvarlegra óvæntra atvika

Lög um landlækni og lýðheilsu kveða skýrt á um tilkynningarskyldu vegna óvæntra atvika i heilbrigðisþjónustu. Í tíundu grein laganna segir:

„Heilbrigðisstofnunum, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna landlækni án tafar um óvænt atvik sem valdið hefur eða hefði getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, svo sem dauða eða varanlegum örkumlum. Jafnframt skal upplýsa sjúkling um hið óvænta atvik án ástæðulausra tafa og nánustu aðstandendur hans þegar það á við. Landlæknir skal rannsaka slík mál til að finna á þeim skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að slík atvik eigi sér ekki aftur stað. Veita skal landlækni þær upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg við rannsókn málsins. Landlæknir skal eiga greiðan aðgang að heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna í þágu rannsóknar."

Enn fremur segir í lögunum að þegar óvænt dauðsfall verður „á heilbrigðisstofnun eða annars staðar þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við meðferð eða forvarnir vegna sjúkdóms", skuli einnig tilkynna það til lögreglu og er það í samræmi við ákvæði laga um dánarvottorð, krufningar o.fl.

Hvert er ferlið í kjölfar tilkynningar um óvænt alvarlegt atvik?

Rannsókn embættis landlæknis, vegna tilkynninga um alvarleg óvænt atvik í heilbrigðisþjónustu, fer fram eins fljótt og mögulegt er. Tilkynningum er forgangsraðað eftir tilefni og getu hverju sinni. Umfang rannsókna er mismikið eftir eðli tilkynningar en algengur tími rannsóknar er 3 -18 mánuðir.

Sérfræðingar embættis landlæknis, einkum læknar og hjúkrunarfræðingar, sjá um rannsókn á alvarlegum óvæntum atvikum.

Hugsanlegt er að embætti landlæknis fylgi málinu eftir með eftirfylgniúttekt.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis