Fara beint í efnið

Eftirlitsmál embættis landlæknis

Stofnun eftirlitsmáls er sú aðferð sem notuð er þegar talin er ástæða til að fylgja eftir einhverju því sem mögulega geti leitt til beitingar viðurlagaúrræða. Enginn áfellisdómur felst í því einu að eftirlitsmál sé stofnað.

Eitt af meginhlutverkum embættis landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, sem og að hafa eftirlit með lyfjaávísunum. Tilgangur rannsóknar og málsmeðferðar embættisins í eftirlitsmálum miðar að því að tryggja gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu. Hafi misbrestur orðið á veitingu slíkrar þjónustu er metið hvort tilefni sé til frekari eftirfylgni, leiðbeininga, eða viðurlagaúrræða í samræmi við III. og IV. kafla laga um landlækni og lýðheilsu.

Viðurlagaúrræðin gagnavart einstökum starfsmönnum geta verið tilmæli, áminning, takmörkun starfsleyfis (t.d. takmörkuð heimild til ávísunar lyfja) og svipting starfsleyfis.

Hvenær hefst eftirlitsmál?

Eftirlitsmál hjá embætti landlæknis hefjast:

  • í kjölfar ábendingar til embættisins

  • í kjölfar kvörtunar vegna heilbrigðisþjónustu

  • í kjölfar alvarlegs óvænts atviks í heilbrigðisþjónustu

  • vegna eftirlits með starfsemi heilbrigðisstarfsmanns eða heilbrigðisstofnunar

  • vegna eftirlits með lyfjaávísunum á grundvelli lyfjagagnagrunns embættis landlæknis

  • í kjölfar þess að heilbrigðisstarfsmaður er dæmdur til refsingar, hvort sem er vegna brota á lögum sem varða heilbrigðisþjónustu eða öðrum lögum.

Vinnsla eftirlitsmála

Embætti landlæknis getur krafist þess að heilbrigðisstarfsmaður gangist undir rannsókn sérfræðinga sé það talin nauðsynlegt til að meta hvort hann sé hæfur til að gegna starfi sínu.

Slík rannsókn felst til dæmis í að:

  • óháðum sérfræðingum er falið að fara yfir ákveðna þætti í störfum heilbrigðisstarfsmanns.

  • þar til bærir óháðir sérfræðingar eru fengnir til að leggja læknisfræðilegt mat á hvort heilbrigðisstarfsmaður sé hæfur til að sinna starfi sínu.

Eftirlitsmáli getur lokið án viðurlaga teljist ekki forsendur til þeirra að lokinni rannsókn hjá embættinu. Til dæmis getur verið um það að ræða að upplýsingar reynist rangar, að ekki sé ástæða til viðurlaga eða að ekki er sýnt fram á réttmæti viðurlaga.

Sæti heilbrigðisstarfsmaður takmörkun eða sviptingu starfsleyfis getur hann sótt um afléttingu takmarkana og endurveitingu starfsleyfis, teljist ekki lengur eiga við það sem leiddi til takmörkunar eða sviptingar starfsleyfisins. Hið sama á við um takmörkun eða sviptingu á heimild til ávísunar lyfja.

Embætti landlæknis bregst einnig við ef lögverndað starfsheiti heilbrigðisstéttar er notað án þess að viðkomandi hafi starfsleyfi landlæknis. Um misskilning eða mistök getur verið að ræða, t.d. að starfsheiti er tilgreint án vitundar og samþykkis viðkomandi. Einnig eru dæmi um að þeir sem lokið hafa tilskilinni menntun tilgreini sig með starfsheiti heilbrigðisstéttar án þess að hafa fengið starfsleyfi hjá landlækni.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis