Námslán og styrkir, almennar upplýsingar
Námsmenn á efri skólastigum geta fjármagnað nám sitt með lánum og styrkjum eða leitað í ýmsa sjóði á vegum stofnana, fyrirtækja, samtaka og einstaklinga.
Námslán
Almennt þurfa námsmenn ekki að útvega ábyrgðarmenn að námslánum en séu þeir á vanskilaskrá þurfa þeir að fá einn ábyrgðarmann að lánum sínum.
Eigi lántakandi í erfiðleikum með afborganir láns ætti hann að kynna sér úrræði Menntasjóðs námsmanna.
Greiðendur
Þeir nemar á framhaldsskólastigi sem stunda löggilt iðnnám og annað samþykkt starfsnám geta sótt um lán hjá Menntasjóði námsmanna. Frekari upplýsingar er að finna á vef sjóðsins.
Lánshæft nám á vef Menntasjóðs námsmanna
Menntasjóður námsmanna veitir lán til námsmanna til að framfleyta sér meðan á háskólanámi hér heima eða í útlöndum stendur. Nemi verður þó að uppfylla viss skilyrði.
Námsmenn sem skilað hafa tilskildum gögnum fá í hendur lánsáætlun þar sem námslán eru ekki greidd fyrr eftir að sjóðnum hafa borist gögn um árangur í námi. Lánsáætlunin gefur umsækjanda kost á skammtímaláni eða framfærsluláni hjá bönkum og sparisjóðum. Allar nánari upplýsingar er að finna á vefjum banka og sparisjóða.
Lán á námstíma miðast við framfærslu hér á landi og er hún skilgreind af Menntasjóði hverju sinni. Framfærsla í útlöndum getur verið mismunandi eftir löndum og borgum.
Framfærslulán á vef Menntasjóðs
Grunnframfærsla er breytileg eftir aðstæðum og fjölskyldulífi lánþega. Hægt er að sækja um viðbótarlán vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á stöðu og högum námsmanns.
Lán eru einnig veitt vegna skólagjalda, fari gjöld upp fyrir vissa upphæð í innlendum skóla og til framhaldsháskólanáms í útlöndum, ferðakostnaðar og bóka- og efniskaupa.
Lánþega ber að tilkynna allar breytingar sem verða á högum hans.
Námsmaður getur að uppfylltum skilyrðum fengið að hámarki lán í fimm ár samanlagt. Námsmaður í framhaldsháskólanámi getur fengið lán í allt að fimm ár til viðbótar eða samtals tíu ár.
Endurgreiðslur á námslánum hefjast aldrei fyrr en tveimur árum eftir námslok og reiknast vextir frá námslokum. Endurgreiðslur eru tvisvar á ári.
Menntunarmeðlag og barnalífeyrir vegna náms
Menntunarmeðlag má greiða fólki á aldrinum 18 til 20 ára að uppfylltum skilyrðum um meðlagsgreiðslur. Samkvæmt barnalögum er hægt að úrskurða meðlagsskylt foreldri til að inna af hendi framlag til menntunar.
Framlag vegna menntunar ungmenna á vef TR
Þá geta ungmenni sótt um barnalífeyri vegna náms ef annað foreldri eða bæði eru elli-, endurhæfingar- eða örorkulífeyrisþegar eða ef annar eða báðir foreldrar eru látnir.
Barnalífeyrir vegna náms á vef TR
Ef ungmenni býr á öðrum stað, þ.e. hefur annað lögheimili en foreldrar, getur það sótt um menntunarmeðlag frá báðum foreldrum.
Skilyrði fyrir greiðslu er að ungmenni stundi nám eða starfsþjálfun í viðurkenndum framhaldsskóla í a.m.k. sex mánuði á ári.
Ungmenni sækir sjálft um meðlag/lífeyri á eyðublaði og skilar inn til Tryggingastofnunar ríkisins eða umboðsskrifstofa á landsbyggðinni ásamt fylgiskjölum.
Styrkir
Framhaldsskólanemar sem stunda nám fjarri heimahögum, fjölskyldu eða eru efnalitlir geta sótt um jöfnunarstyrk frá ríkissjóði. Námsstyrkjanefnd úthlutar styrknum, í formi:
dvalarstyrks,
styrks vegna skólaaksturs eða
styrks til efnalítilla nema.
Fjölskyldur eða forráðamenn efnalítilla framhaldsskólanema geta sótt um styrk úr Framtíðarsjóði Hjálparstarfs kirkjunnar vegna útgjalda.
Hjálparstarf kirkjunnar
Framhaldsskólanemar geta sótt um styrki til að fjármagna nám sitt. Þá geta háskólanemar sótt um margs konar styrki til að fjármagna nám og rannsóknir, hér heima og í útlöndum. Allar nánari upplýsingar er að finna á sjóðavef Háskóla Íslands.
Sjóðavefur Háskóla Íslands
Starfsfólki menntastofnana á öllum skólastigum stendur einnig til boða að sækja um styrki sem veittir eru til verkefna á sviði menntamála.
Sjóðir og eyðublöð á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis
Vert að skoða
Lög og reglugerðir
Þjónustuaðili
Menntasjóður námsmanna