Fara beint í efnið

Notendaskilmálar Ísland.is

Stafrænt Ísland, í umboði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, ber ábyrgð á rekstri og þróun Ísland.is, sem er rafræn upplýsinga- og þjónustuveita opinberra aðila á Íslandi. Öll verkefni Stafræns Íslands eru unnin í samstarfi við ríki, sveitarfélög, stofnanir þeirra og aðra opinbera aðila (“opinberir aðilar”).

Á vef Ísland.is getur fólk og fyrirtæki („notendur“) fengið upplýsingar frá og nálgast þjónustu opinberra aðila. Ýmist eru upplýsingar birtar beint á Ísland.is eða notandi fluttur yfir á vefsíðu viðeigandi opinbers aðila, eftir því hvar upplýsingarnar eru aðgengilegar.

Á innri vef Ísland.is, sem er aðgangsstýrt svæði og gengur undir heitinu „Mínar síður“ er hægt að nálgast sértækar upplýsingar frá hinu opinbera, taka á móti gögnum og í einhverjum tilvikum sækja um þjónustu. Mínar síður eru aðgengilegar á vefnum Ísland.is og á Ísland.is appinu.

Skilmálar þessir eiga við um aðgang og notkun á Ísland.is

Lagalegur fyrirvari

Upplýsingar á Ísland.is koma frá þeim opinberu aðilum sem viðkomandi upplýsingar heyra undir og er leitast við að tryggja áreiðanleika þeirra eins og kostur er, t.a.m. með rekstri stofnanavefja opinberra aðila á Ísland.is og samningum við stofnanir um uppfærslu eigin efnis. Upplýsingar á Ísland.is, tilvísanir og tenglar á efni utan Ísland.is kunna að breytast án fyrirvara.

Stafrænt Ísland sér um rekstur og þróun Ísland.is og ber ábyrgð á því efni sem birt er, að undanskildu því sem birt er á stofnanavefjum eða er í umsjá opinberra aðila. Þjónusta Stafræns Íslands felst í að aðstoða opinbera aðila við að koma upplýsingum á framfæri við notendur en ekki í lögfræðilegri ráðgjöf, yfirferð á eða samþykki upplýsinga sem opinberir aðilar kjósa að birta á Ísland.is.

Stafrænt Ísland getur ekki alltaf séð fyrir tæknileg eða annars konar vandamál sem kunna að valda því að ekki sé hægt að sækja upplýsingar, eða þjónusturof verði á annan hátt. Stafrænt Ísland reynir að tryggja áreiðanleika eftir fremsta megni en ber ekki ábyrgð á því að samskipti, stillingar eða gögn birtist rétt, vistist eða skili sér til notenda Ísland.is.

Stafrænt Ísland ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem orsakast beint eða óbeint vegna bilunar í tölvubúnaði og/eða hugbúnaði Stafræns Íslands eða notanda eða af öðrum orsökum, sem kunna að valda því að upplýsingar séu ekki réttar eða að notandi nái ekki að tengjast þjónustunni. Stafrænt Ísland ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem kann að orsakast beint eða óbeint vegna galla eða bilunar í endabúnaði, tengingu við veraldarvefinn, þeim hugbúnaði sem nauðsynlegur er til tengingar við vefsvæði Stafræns Íslands, vafra eða stýrikerfi notanda eða tölvukerfi Stafræns Íslands. Stafrænt Ísland ber ekki ábyrgð á tjóni sem

  1. hlýst af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun notanda

  2. rekja má til rangra aðgerða notanda eða annars aðila

  3. kann að hljótast, með beinum eða óbeinum hætti, af upplýsingum sem eru aðgengilegar á vefsvæðum Ísland.is né tjóni rakið til þeirra

  4. rekja má til utanaðkomandi atvika t.d. bilana, rangra utanaðkomandi upplýsinga o.þ.h. né tjóna sem talin verða falla undir óviðráðanleg tilvik (force majeure)

Mínar síður

Allir einstaklingar og lögaðilar sem hafa fengið útgefna eða eru skráðir með kennitölu hafa aðgang að Mínum síðum.

Notendur auðkenna sig á Mínar síður með rafrænni auðkenningu í gegnum innskráningar- og umboðskerfi Ísland.is. Notendur geta valið úr þremur leiðum til að auðkenna sig á Mínar síður.

  1. Með rafrænum skilríkjum í síma.

  2. Með rafrænum skilríkjum á korti

  3. Með rafrænum skilríkjum í snjallforriti (auðkennisappið)

Eftir nýskráningu í Ísland.is appið er notanda heimilt að auðkenna sig með persónubundnum öryggisþáttum, t.d. PIN númeri, með skönnun fingrafars eða með öðrum hætti í samræmi við öryggiskröfur Stafræns Íslands á hverjum tíma.

Notanda ber að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja persónubundna öryggisþætti sem hann notar til að auðkenna sig inn á Mínar síður. Notandi ber ábyrgð á því að varðveita með tryggum hætti allt sem snertir öryggisþætti og á því að aðgangsupplýsingar berist ekki í hendur óviðkomandi aðila eða séu aðgengilegar öðrum. Notandi ber ábyrgð á öllum aðgerðum sem hann framkvæmir í kjölfar innskráningar á Mínum síðum.

Á Mínum síðum eru aðgengileg gögn, jafnt í rituðu sem í öðru formi, sem verða til við meðferð máls hjá opinberum aðilum, s.s. svo sem tilkynningar, ákvarðanir, úrskurði, ákvaðir og aðrar yfirlýsingar. Gögnin kunna að innihalda bæði almennar og viðkvæmar persónuupplýsingar einstaklinga þ.á.m. um fjármál, menntun, fasteignir, umsóknir, ökutæki, skírteini og önnur starfsleyfi notanda. Öll gögn eru geymd hjá þeim opinbera aðila sem býr gögnin til en gögnin eru aðgengileg á Mínum síðum.

Upplýsingar sem berast á Mínar síður gætu innihaldið trúnaðarupplýsingar og/eða einkamál og er eingöngu ætlaðar þeim sem gögnin eru stíluð á. Ef gögnin hafa borist röngum viðtakanda ber þeim aðila að gæta fyllsta trúnaðar, tilkynna sendanda um mistökin og eyðileggja sendinguna eins og skylt er skv. 4. mgr. 88. gr. laga nr. 70/2022 um fjarskipti. Hvorki má lesa, skrá, afrita né notfæra sér póstinn á nokkurn hátt og ber viðkomandi að tilkynna sendanda gagnanna samstundis að hann hafi ranglega borist sér. Trúnaðar- og þagnarskylda gildir einnig um upplýsingar sem sendar eða afhentar eru röngum viðtakanda með öðrum leiðum.

Persónuvernd

Persónuverndarstefna Stafræns Íslands, sem liggur til grundvallar skilmálum þessum, inniheldur ítarlegar upplýsingar um skiptingu ábyrgðar, öryggismál og meðferð Stafræns Íslands á persónuupplýsingum vegna Ísland.is. Stafrænt Ísland áskilur sér rétt til að uppfæra persónuverndarstefnuna og er ávallt sú útgáfa í gildi sem er aðgengileg á hverjum tíma á vefsvæðinu island.is.

Umfjöllun upp uppruna persónuupplýsinga sem opinberir aðilar miðla á Ísland.is er að finna í persónuverndarstefnu viðkomandi opinbers aðila.

Aðgangur

Forsjáraðilar barna hafa aðgang að Mínum síðum hjá börnum sínum yngri en 18 ára, þó með þeim fyrirvara að lög eða reglur geta takmarkað aðgang forsjáraðila s.s. að heilsufarsupplýsingum ungmenna sem náð hafa 16 ára aldri. Upplýsingar um forsjártengsl eru sótt til Þjóðskrár. Ef forsjáraðilar barna hafa ekki aðgang að Mínum síðum hjá börnum sínum skulu þeir hafa samband beint við Þjóðskrá.

Fulltrúar lögaðila hafa aðgang að Mínum síðum fyrir hönd lögaðila. Upplýsingar um fulltrúa lögaðila eru sóttar í fyrirtækjaskrá Skattsins. Ef fulltrúar lögaðila hafa ekki aðgang að Mínum síðum lögaðila skulu þeir hafa samband beint við fyrirtækjaskrá Skattsins.

Aðila, sem falið er á grundvelli laga að gæta hagsmuna einstaklings eða lögaðila, hefur aðgang að Mínum síðum viðkomandi. Ef notandi hefur ekki aðgang að Mínum síðum hjá einstaklingi eða lögaðila sem honum er falið að gæta hagsmuna hjá, skal viðkomandi hafa beint samband við það stjórnvald sem málaflokkurinn heyrir undir.

Notandi getur stofnað aðgang fyrir þriðja aðila, aðgangshafa, til að sýsla með eða skoða gögn í Mínum síðum viðkomandi. Notandi getur takmarkað rétt aðgangshafa við tilteknar heimildir eða tiltekinn flokk af upplýsingum. Notandi er ábyrgur fyrir þeim aðgerðum sem aðgangshafi framkvæmir á grundvelli aðgangsins. Notandi getur ávallt afturkallað eða óvirkjað aðganginn. Aðgangur sem notandi stofnar fyrir þriðja aðila getur að hámarki varað í 90 daga.

Askur

Samskipti með Aski, netspjalli Stafræns Íslands eru eingöngu ætluð fyrir almennar fyrirspurnir og aðstoð við notendur. Samskipti með Ask eru annað hvort á grundvelli sjálfvirkrar svörunar eða með netspjalli við þjónustufulltrúa.

Notendur geta ekki hafið formleg stjórnsýsluerindi með Aski eða óskað upplýsinga um stöðu á stjórnsýslumáli. Notendum Asks er bent á að senda aldrei viðkvæmar upplýsingar í opnu netspjalli. Samskipti með Ask, sem ekki eru afgreidd með sjálfvirku netspjalli, eru skráð í þjónustukerfi Stafræns Íslands þar sem erindinu er komið til þess aðila sem ber ábyrgð á viðkomandi málaflokki. Notandi getur óskað eftir því að vera færður á milli opinberra aðila sem hafa sett upp Ask.

Öll sjálfvirk spjöll með Aski eru vistuð í 30 daga. Öll samskipti notanda við þjónustufulltrúa hjá opinberum aðila í netspjalli eru vistuð í 90 daga frá lokum erindis. Samskiptin eru vistuð í gagnagrunni þess opinbera aðila þar sem netspjalli lauk. Samskiptin eru vistuð í þeim tilgangi að tryggja rekjanleika samskipta, úrvinnslu fyrirspurna og betrumbæta sjálfvirk svör netspjalls.

Skilmálar þessir um netspjall á Ísland.is eiga einungis við um Ask. Stafrænt Ísland kemur ekki að rekstri annarra netspjalla en Ask. Önnur netspjöll sem birtast á vefjum stofnana á Ísland.is eru alfarið á ábyrgð viðeigandi opinbers aðila.

Skilmálar þessir voru síðast uppfærðir: 05.12.2022

Þjónustuaðili

Staf­rænt Ísland