Fara beint í efnið

Við lok skipta á dánarbúi eða greiðslu á fyrirframgreiddum arfi þarf að fylla út erfðafjárskýrslu og skila til sýslumanns þar sem skiptin fara fram.

Erfingjar/umboðsmaður þurfa að skila skýrslunni innan þess frests sem veittur hefur verið í leyfi til einkaskipta.

Erfðafjárskýrsla er eyðublað til að reikna út skattstofn erfðafjárskatts og erfðafjárskatt á erfingja. Eyðublaðið reiknar sjálfkrafa allar fjárhæðir þegar upplýsingar um dánardag, eignir, skuldir og arfshlutföll hafa verið fylltar inn.

Ef maki hefur fengið útgefið leyfi til setu í óskiptu búi og skipti fara fram á meðan hann er enn á lífi skal í stað dánardags setja þann dag sem skipti fara fram.

Skattstofn erfðafjárskatts við uppgjör dánarbús er reiknaður með því að leggja saman verðmæti allra eigna hins látna sem liggja fyrir á dánardegi og draga frá skuldir hans og annan kostnað sem heimilt er að draga frá.

Útfylling erfðafjárskýrslu

Á erfðafjárskýrslu skal fylla út upplýsingar um allar eignir og skuldir látna á dánardegi. Hafi látni verið í hjúskap þarf einnig að fylla út hjúskapareignir og skuldir maka nema um séreignafyrirkomulag sé að ræða.

Þegar upplýsingar um eignir og skuldir hafa verið fylltar út í erfðafjárskýrslu kemur í ljós hver hrein eign er. Ef látni var í hjúskap dregst búshluti eftirlifandi maka frá samkvæmt reglum hjúskaparlaga.

Hrein eign dánarbús er til skipta milli erfingja í samræmi við arfshlutföll.

Í erfðafjárskýrslu skal skrá nafn og kennitölu erfingja, tengsl við látna og arfshlutfall.

Erfðafjárskattur greiðist af þeirri fjárhæð sem er umfram skattfrelsismörk. Erfingjar njóta skattfrelsis í hlutfalli við arf sinn.
Dæmi: Óskattskyldur hluti er kr. 6.203.409. Ef arfshlutfall erfingja er 33,33% er óskattskyldur hluti hans kr. 2.067.596. Ef arfshlutfall erfingja er 22,22% er óskattskyldur hluti hans kr. 1.378.397.

Skila þarf erfðafjárskýrslu útfylltri og undirritaðri ásamt fylgigögnum til sýslumanns þar sem skiptin fara fram. Hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þarf að panta viðtalstíma fyrirfram til að leggja fram erfðafjárskýrslu.

Allir erfingja þurfa að undirrita erfðafjárskýrslu nema þeir hafi tilnefnt umboðsmann til þess að koma fram fyrir sína hönd við einkaskiptin. Þá nægir að umboðsmaður undirriti einn erfðafjárskýrslu.

Fylgigögn

Með erfðafjárskýrslu skulu fylgja upplýsingar eftir því sem við á um:

  • verðmæti ökutækja, loftfara og skipa á dánardegi.

  • innistæður í bönkum og sparisjóðum á dánardegi.

  • skuldabréf, verðbréf og útistandandi kröfur á dánardegi.

  • aðrar tilgreindar eignir eftir því sem við á til dæmis ársreikning félags, verðmæti búseturéttar eða hugverkaréttinda.

  • greiðslur sem hafa borist eftir dánardag til dæmis lífeyrisgreiðslur eða endurgreiðsla frá Skattinum.

  • útfararkostnað

  • skuldir á dánardegi til dæmis lán, ógreidd opinber gjöld og aðrar skuldir eftir því sem við á.

Með erfðafjárskýrslu geta einnig þurft að fylgja:

  • skiptayfirlýsingar, þarf að vera undirrituð af erfingjum eða umboðsmönnum og með tveimur vottum.

  • einkaskiptagerð (í samræmi við 93. gr. skiptalaga)

  • frumvarp til úthlutunar ef dánarbúi er skipt opinberum skiptum.

Eyðublað fyrir erfðafjárskýrslu

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15