Fara beint í efnið

Fyrirframgreiddur arfur

Einstaklingur (arfleifandi) sem vill fyrir andlát sitt ráðstafa hluta eða öllum eignum sínum til erfingja sinna getur gert það með fyrirframgreiðslu arfs.

Réttaráhrif fyrirframgreiðslu upp í arf miðast við það tímamark þegar erfðafjárskattur er greiddur. Þessa reglu þurfa erfingjar að hafa í huga þegar verið er að ganga frá fyrirframgreiðslu fyrir áramót. Ekki er nægjanlegt að sýslumaður áriti skýrsluna fyrir áramót. Erfingjar verða jafnframt að greiða skattinn fyrir áramót.

Ferlið

Fylla þarf út erfðafjárskýrslu vegna fyrirframgreiðslu arfs og skila henni undirritaðri til sýslumanns þar sem viðkomandi á lögheimili. Bæði arfláti og erfingjar verða að skrifa undir skýrsluna. Ef erfingjar eru undir 18 ára aldri verða lögráðamenn þeirra að skrifa undir skýrsluna að fengnu samþykki yfirlögráðanda (sýslumanns).

Þá verður að koma fram í skýrslunni hvaða eignir verið er að greiða út sem arf.

Eftirfarandi gögnum getur þurft að skila inn með erfðafjárskýrslu:

  • Skiptayfirlýsingu vegna fasteignar (ef verið er að afhenda fasteign í arf). Þarf að vera undirrituð af erfingjum eða umboðsmönnum og með tveimur vottum.

  • Erfðaskrá (ef verið er að greiða bréferfingja út arf).

  • Samþykki yfirlögráðanda (sýslumanns) ef erfingi er undir 18 ára aldri.

  • Gögn sem staðfesta verðmæti eignarinnar, til dæmis: yfirlit verðbréfaeigna og verðmat ökutækja.

Þegar sýslumaður hefur móttekið erfðafjárskýrslu yfirfer hann hana, áritar og leggur á erfðafjárskatt.

Erfingjar fá tilkynningu um álagningu erfðafjárskatts í stafrænt pósthólf á Ísland.is. Í bréfinu kemur fram hvar hægt er að greiða erfðafjárskattinn.

Gjalddagi erfðafjárskatts er 10 dögum frá því að tilkynning er send í pósthólf á Ísland.is og eindagi mánuði síðar. Hafi erfðafjárskattur ekki verið greiddur á eindaga reiknast dráttarvextir frá gjalddaga.

Þegar erfðafjárskattur hefur verið greiddur getur sýslumaður staðfest skiptayfirlýsingu um afhendingu fasteignar í fyrirframgreiddan arf. Í framhaldinu er hægt að þinglýsa henni og þá verða erfingjar þinglýstir eigendur fasteignarinnar. Þinglýsing skiptayfirlýsingar fer fram hjá þeim sýslumanni þar sem fasteignin er staðsett. Yfirlýsingin þarf að vera í frumriti og greiða þarf þinglýsingargjald.

Hverjum má fyrirframgreiða arf?

  • Lögerfingjum sem eiga rétt til arfs samkvæmt erfðalögum. 

  • Bréferfingjum sem eiga rétt til arfs samkvæmt erfðaskrá.


Skattstofn erfðafjárskatts við fyrirframgreiðslu arfs

Erfðafjárskattur er 10% af verðmæti eignar sem verið er að afhenda.

Ekki má draga frá skuldir eða kostnað við útreikning á erfðafjárskatti vegna fyrirframgreiðslu arfs.

Útreikningur á erfðafjárskatti vegna fyrirframgreiðslu arfs miðast við það tímamark þegar sýslumaður áritar erfðafjárskýrsluna.

Skattfrelsismörk gilda ekki um fyrirframgreiddan arf. Greiða verður fullan erfðafjárskatt af því sem afhent er.

Erfingjar eru ábyrgir fyrir greiðslu erfðafjárskatts einn fyrir alla og allir fyrir einn, með þeirri takmörkun þó að ekki verður innheimt hjá neinum meira en sem svarar heildararfi hans.

Skatturinn fær afrit af erfðafjárskýrslunni og yfirfer hana. Fenginn arfur verður  forskráður á skattframtal  erfingja.


Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15