Fara beint í efnið

Erfðafjárskattur

Eignir og skuldir dánarbús

Skattstofn erfðafjárskatts

Skattstofn erfðafjárskatts við uppgjör dánarbús er reiknaður með því að leggja saman verðmæti allra eigna hins látna sem liggja fyrir á dánardegi og draga frá skuldir hans og annan kostnað sem heimilt er að draga frá.

Skattstofn erfðafjárskatts er fundinn út með því að fylla út erfðafjárskýrslu.

Ef látni var í hjónabandi eru allar hjúskapareignir og skuldir beggja hjóna í sameiginlegu búi þeirra. Helmingur er búshluti eftirlifandi maka og dregst frá samkvæmt reglum hjúskaparlaga.

Eignir

Í erfðafjárskýrslu þarf að skrá verðmæti allra eigna sem metin verða til fjár þ.m.t. fasteignir, ökutæki, loftför og skip, innbú, innistæður í bönkum og sparisjóðum, skuldabréf, verðbréf og útistandandi kröfur, hlutabréf, peninga og aðrar eignir svo sem verkfæri, hugverkaréttindi, önnur réttindi t.d. aflaheimildir o.fl. Bæði skal skrá eignir sem eru hér á landi og erlendis.

Með verðmæti er átt við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna. Hægt er að afla upplýsinga um markaðsverðmæti hjá fjármálafyrirtækjum eða með því að fá verðmat frá söluaðila. Um verðmæti eftirfarandi eigna gilda þó sérreglur:

1. Fasteignir

Fasteignir skulu skráðar á fasteignamati (heildarmat) eins og það var skráð hjá HMS á dánardegi arfleifanda. Upplýsingar um fasteignamat eru í skattframtölum.

Sé almennt markaðsverðmæti fasteignar talið lægra en fasteignamat geta erfingjar óskað eftir því að sýslumaður skipi matsmann til þess að meta markaðsverðmæti fasteignarinnar. Skilyrði er að ekki sé búið að selja eignina úr dánarbúinu.

Ef sýslumaður hefur skipað matsmann má skrá matsverðið á erfðafjárskýrslu í stað fasteignamats. Matið má ekki vera eldra en fjögurra vikna þegar erfðafjárskýrslu er skilað inn.

Ef látni átti fasteign með kvöð um innlausnarrétt skal leggja erfðafjárskatt á innlausnarverðið sé það lægra en fasteignamatsverðið.

2. Innistæður í bönkum og sparisjóðum

Innistæður í bönkum og sparisjóðum skulu skráðar ásamt áföllnum vöxtum og/eða verðbótum á dánardegi arfleifanda. Skrá skal númer allra bankareikninga. Heimilt er að draga fjármagnstekjuskatt frá áföllnum vöxtum og/eða verðbótum.

3. Skuldabréf og útistandandi kröfur

Skuldabréf sem látni er eigandi að, sem og aðrar inneignir og útistandandi kröfur skulu skráðar ásamt áföllnum vöxtum og/eða verðbótum á dánardegi arfleifanda. Skrá skal nafn og kennitölu útgefanda.

4. Hlutabréf

  • Ef hlutabréf í félagi eru skráð á skipulegum markaði skal skrá þau á erfðafjárskýrslu á kaupgengi eins og það var við lokun markaðar fyrir dánardag.

  • Ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð á skipulegum markaði skal miða við gangverð þeirra í viðskiptum.

  • Ef hvorki kaupgengi né gangverð er til staðar skal miða við bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags að viðbættum áunnum óefnislegum verðmætum sem metin eru til fjár og gefa af sér arð í framtíðinni en óheimilt er lögum samkvæmt að færa til bókar, s.s. aflaheimildir. Hægt er að fá upplýsingar hjá bönkum eða sækja ársreikning félagsins á vefsíðu Skattsins.

5. Búpeningur

Búpening skal skrá á því verði sem lagt er til grundvallar í síðasta skattframtali arfleifanda fyrir dánardag. 

6. Eignir seldar á uppboði (aðrar en fasteignir)

Þegar eignir, aðrar en fasteignir, hafa verið seldar nauðungarsölu skal miða við uppboðsandvirði.

Skuldir

Útfararkostnaður, opinber gjöld og aðrar skuldir koma til lækkunar á skattstofni dánarbúsins við útreikning á erfðafjárskatti og skulu skráðar í erfðafjárskýrslu. Ef látni var í hjónabandi skal skrá skuldir beggja hjóna nema um séreignafyrirkomulag sé að ræða. Bæði skal skrá skuldir sem eru hér á landi og erlendis.

Einnig er heimilt að draga frá kostnað vegna skipunar matsmanns hafi sýslumaður skipað matsmann til að meta verðmæti eignar dánarbús.  

Kostnaður við skipti á dánarbúi kemur ekki til frádráttar sem skuld á erfðafjárskýrslu. Erfðafjárskattur sem er lagður á erfingjana kemur ekki til frádráttar sem skuld á erfðafjárskýrslu.

Ekki má draga frá skuldir eða kostnað við útreikning á erfðafjárskatti vegna fyrirframgreiðslu arfs.

Allar upplýsingar í erfðafjárskýrslu skulu studdar gögnum. 

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15