Fara beint í efnið

Unglingsárin, nám, vinna og heilsa

Á þessari síðu

Með aldri og þroska öðlast hver og einn ýmis réttindi. Að sama skapi þarf sá hinn sami að axla ábyrgð og uppfylla ýmsar skyldur.

„Börn á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klst. Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.“ Úr Barnaverndarlögum.

Réttindi og skyldur Réttindi segja til um hvers einstaklingurinn getur krafist af samfélaginu, en skyldur segja til um hvaða kröfur samfélagið getur gert til einstaklingsins.

Meðal réttinda einstaklingsins er rétturinn til framfærslu, mál- og skoðanafrelsi og ríkisborgararéttur.

Unglingi á aldrinum 13 - 18 ára er skylt að hlýða fyrirmælum foreldra, virða skoðanir annarra og hlíta lögum samfélagsins.

Við 18 ára aldur fæst lögræði, það er fjárræði og sjálfræði, sem þýðir að unglingur ræður eigin eignum og búsetu en missir réttindi til framfærslu.

Heimilt er að úrskurða foreldri til að greiða barni sínu framlag til menntunar eða starfsþjálfunar þar til það nær 20 ára aldri.

Nám og vinna

Nám

Börnum og unglingum á aldrinum 6 - 16 ára er lögum samkvæmt skylt að sækja grunnskóla, en skólagangan er ókeypis.

Þeir sem ljúka grunnskólanámi með grunnskólaprófi eða hafa náð framhaldsskólaaldri geta sótt um vist í framhaldsskóla. Samkvæmt lögum er fræðsluskylda til 18 ára aldurs.

Innritun framhaldsskólanema á haustönn fer fram á vef Menntagáttar og er síðasti umsóknardagur í júní ár hvert. Innritun nema á vorönn fer ýmist fram í hverjum skóla fyrir sig eða á vef Menntagáttar.

Ýmsar upplýsingar um sérskóla, sérdeildir, starfsbrautir og annað námsframboð fyrir fötluð börn og unglinga má finna á vef Menntagáttar.

Vinna

Börn í skyldunámi má aðeins ráða til vinnu í störf af léttara tagi.

Börn yngri en 13 ára mega aðeins taka þátt í menningar- og listviðburðum og íþrótta- og auglýsingastarfsemi og þá með leyfi Vinnueftirlitsins.

Börn á aldrinum 13 - 14 ára má ráða í störf af léttara tagi, nema þau sem teljast hættuleg eða líkamlega mjög erfið.

Vinnutími 15 - 17 ára má vera 8 klst. á dag eða 40 klst. á viku á þeim tíma þegar skóli er ekki.

Næturvinna barna og unglinga er bönnuð.

Flest stærri sveitarfélög reka vinnuskóla eða unglingavinnu nokkrar vikur á sumrin fyrir elstu grunnskólanemana.

Nokkrar atvinnumiðlanir sérhæfa sig í að aðstoða ungt fólk við að finna vinnu.

Ungt fólk hvaðanæva af Norðurlöndunum á þess kost að sækja um sumarstörf í grannríkjunum.

Kynþroski og kynlíf

Aldur við upphaf kynþroska virðist stjórnast af erfðum og umhverfisþáttum.

Upphaf kynþroska hefur farið lækkandi og eru aðal ástæður þess taldar vera betra næringarástand og betri heilbrigðisþjónusta.

Samkvæmt almennum hegningarlögum er það lögbrot að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn sem er yngra en 15 ára.

Áfengi og vímuefni

Áfengis- og vímuefnaneysla getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Oftast er neyslan í byrjun fikt sem sjaldan verður stórvandamál. En sá sem hefur fiktað er kominn yfir ákveðin mörk og hætta er á að fiktið verði að fíkn.

Fíkn er skilgreind með eftirfarandi hætti af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni:

  1. Sterk löngun eða áráttukennd þörf fyrir efnið.

  2. Stjórnlaus neysla. Tíðari, meiri eða varir lengur en gert var ráð fyrir.

  3. Líkamleg fráhvarfseinkenni þegar dregið er úr neyslu.

  4. Aukið þol – meira magn þarf til að ná sömu áhrifum og áður.

  5. Meiri tími fer í að nálgast efnið, neyta þess eða ná sér eftir neyslu.

  6. Neyslu er haldið áfram þrátt fyrir líkamlegan eða sálrænan skaða.

Fíkn er til staðar ef þrjú af sex ofangreindum einkennum hafa verið til staðar um eitthvert skeið á síðastliðnum tólf mánuðum.

Samkvæmt lögum er bannað að selja, veita eða afhenda ungmennum yngri en 20 ára áfengi.

Lotugræðgi og lystarstol

Átröskunarsjúkdómar geta orðið mjög alvarlegir og lífshættulegir.

Sjúklingar þjást af sjúklegum ótta við að fitna, þrátt fyrir að vera í eðlilegri þyngd eða jafnvel horaðir.

Ástandinu fylgir andleg og líkamleg vanlíðan og sjúklingurinn þarf meðferð til að ná bata.
Starfsafl

Ungar stúlkur eru í mestri áhættu á að veikjast en drengir og einstaklingar á öllum aldri geta fengið átraskanir.

Undanfari átraskana eru oft megrun, áföll af ýmsu tagi, erfiðleikar í félagahópnum, þunglyndi og önnur veikindi.

Brýnt er að grípa strax inn í og leita aðstoðar ef átröskun er að þróast.

Oft áttar einstaklingurinn sig ekki á því að eitthvað er að og þess vegna verður fjölskyldan að vera vakandi fyrir einkennum sjúkdómsins.

Vert að skoða

Nám og vinna

Kynþroski og kynlíf

Áfengi og vímuefni

Annað

Lög og reglugerðir

Þjónustuaðili

Umboðs­maður barna