Fara beint í efnið

Tjónaökutæki og viðgerðarferill

Tilkynning til ökutækjaskrár um tjónaökutæki

Skilgreiningin á tjónaökutæki

Tjónaökutæki er ökutæki sem hefur orðið fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá það sem tjóna­ökutæki og notkun þess bönnuð. Ekki má taka slíkt ökutæki í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði.

  • Athugið að skráning tjónaökutækis nær yfir alla ökutækjaflokka, hvort sem um bifreið, bifhjól, eftirvagn, dráttarvél eða torfærutæki er að ræða.

Almennt má segja að hafi ökutæki orðið fyrir skyndilegu höggi af völdum áreksturs eða veltu þannig að skekkja eða skemmd verði á burðarvirki og/eða hjólabúnaði þess, þá ætti að skrá það sem tjónaökutæki. Hið sama á við hafi öryggisbúnaður þess virkjast við árekstur eða af öðrum ástæðum, svo sem öryggispúði í stýri.

Tilkynning og skráning tjónaökutækis

Tilkynnt er um tjónaökutæki til Samgöngustofu (sjá einnig um skráningu tjóna við innflutning tjónaökutækja).

  • Lögregla tilkynnir um tjónaökutæki í þeim tilvikum sem hún hefur afskipti af vettvangi. Eiganda (umráðanda) er heimilt að óska eftir endurmati.

  • Skatturinn (tollasvið) tilkynnir um tjónaökutæki í þeim tilvikum sem innflutningsgögn eða upplýsingar benda til þess að um tjónaökutæki geti verið að ræða. Eiganda (umráðanda) er heimilt að óska eftir endurmati.

  • Tryggingafélög tilkynna um tjónaökutæki sem koma inn á þeirra borð. Skráning tjónaökutækja í þeim tilvikum er endanleg (ekki er hægt að óska eftir endurmati).

  • Eigandi ökutækis hefur einnig heimild til þess að tilkynna það sem tjónaökutæki. Samgöngustofa metur réttmæti slíkra tilkynninga.

Skráning tjónaökutækja í ökutækjaskrá verður því tvennskonar,

  • "Tjónaökutæki I" í þeim tilvikum sem eigandi (umráðandi) hefur heimild til að óska eftir endurmati, og

  • "Tjónaökutæki II" í þeim tilvikum sem ekki er heimilt að óska eftir endurmati.

Endurmat tjónaökutækis

Ef eigandi ökutækis er ósammála tjónaskráningu lögreglu eða Skattsins (tollasviðs) er honum heimilt að færa það til endurmats á skoðunarstöð innan 20 virkra daga frá skráningu þess sem tjónaökutæki.

  • Aðeins er heimilt að færa ökutæki sem skráð eru sem "Tjónaökutæki I" til endurmats.

Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki skráist sem "Tjónaökutæki II". Sjá nánar hér.

Viðgerð á ökutæki

Hafi ökutæki hefur verið skráð sem "Tjónaökutæki II" þarf að fara fram viðgerð á því á viðurkenndu réttingaverkstæði eigi að skrá það aftur í umferð.

Að viðgerð lokinni tilkynnir réttingaverstæðið til Samgöngustofu að viðgerð sé lokið. Þá er skráningin um "Tjónaökutæki II" gerð ógild en hún sést samt alltaf í ferli ökutækisins. Hægt er að fá upplýsingar um það hjá Samgöngustofu hvaða verkstæði framkvæmdi viðgerðina.

Skráning í umferð að lokinni viðgerð

Að lokinni viðgerð á tjónaökutæki, sem framkvæmd var af viðurkenndu réttingaverkstæði, ber að færa það til skoðunar á skoðunarstöð. Niðurstaða skoðunarinnar þarf að vera "Án athugasemda" eða "Lagfæring" til að heimilt sé að skrá ökutækið í umferð á ný.

Að öllum skilyrðum uppfyllt eru skráningarmerkin þá afhend og ökutækið skráð í umferð.

Kostnaður

  • Gjald sem viðurkennt verkstæði þarf að greiða til Samgöngustofu fyrir niðurfellingu á tjónaskráningu í framhaldi af viðgerð er 1.071 króna.

  • Eigandi (umráðandi) ökutækisins þarf að greiða skoðunarstöð fyrir skoðunina sem hún framkvæmir.

  • Greiða þarf skoðunarstöð fyrir endurmat á ökutæki, sé endurmats óskað.

Tilkynning til ökutækjaskrár um tjónaökutæki

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa