Fara beint í efnið

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 43/2023

23. febrúar 2024

Nýr dómur Hæstaréttar í umfangsmiklu fíkniefnamáli

Haestirettur 2

Þann 14. febrúar sl. var kveðinn upp dómur í Hæstarétti í svokölluðu „saltdreifaramáli“, sbr. mál nr. 43/2023. Málið varðaði stórfelldan innflutning og framleiðslu á fíkniefnum sem flutt voru hingað til lands í vökvaformi í saltdreifara og að lokinni framleiðslu var efnunum komið í dreifingu.

Alls voru þrír aðilar ákærðir fyrir að hafa staðið að innflutningnum í félagi með tveimur óþekktum erlendum aðilum. Ákærðu var öllum gefin að sök skipulögð brotastarfsemi og stórfellt fíkniefnalagabrot sem ákærðu sammæltust um að fremja og var framkvæmd brotsins liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka samkvæmt því sem lýst var í ákæru.

Upphaf rannsóknar lögreglu má rekja til rafrænna gagna sem íslenskum löggæsluyfirvöldum bárust frá Europol í júlí árið 2020. Gagnanna var aflað í Frakklandi á grundvelli úrskurður dómara og fékk lögreglan þannig aðgang að netþjónum í Frakklandi sem þjónustuðu dulkóðuð, rafræn samskipti milli notenda samskiptakerfisins Encrochat. Samskiptakerfinu var ætlað að tryggja notendum leynd um samskipti sín og stóð þeim til boða að kaupa sérútbúna síma til að nota við samskiptin, en löggæsluyfirvöld í Evrópu hafði lengi grunað að kerfið væri einkum notað til samskipta í tengslum við skipulagða brotastarfsemi. Þannig var gagnanna aflað og þeim dreift til annarra evrópskra lögregluembætta í gegnum Europol og urðu grundvöllur lögreglurannsóknar og sakfellinga víða í Evrópu.

Í þeim gögnum sem íslensk lögregluyfirvöld fengu afhent mátti sjá rafræn samskipti notendanna með heitin Nuclearfork, Residentkiller og fleiri. Í þeim samskiptum er m.a. fjallað um hvernig ná skuli amfetamínbasa úr saltdreifaranum, hversu mikið af efni hefði þar verið falið og hversu mikið amfetamín mætti framleiða úr því. Þá komu fram leiðbeiningar um hvernig skuli framleiða fíkniefni úr amfetamínbasanum og um efni og aðföng framleiðslunnar. Einnig var fjallað um kostnað við innflutninginn, flutning á fjármunum og dreifingu tilbúinna efna á Íslandi. Af þessum gögnum mátti greina hvert hlutverk aðilanna var og hvernig leiðbeiningar og upplýsingar voru sendar á milli. Meðal gagnanna voru einnig ljósmyndir af saltdreifaranum, amfetamínbasanum og tilbúnum efnum.

Ákærðu voru sakfelldir með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-3394/2022 og var þeim gert að sæta 10 og 12 ára fangelsi. Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms í máli nr. 745/2022 en lækkaði refsingu ákærðu í 8 og 10 ára fangelsi.

Með ákvörðun Hæstaréttar var áfrýjunarleyfi veitt tveimur ákærðu á þeim grundvelli að telja yrði að dómsúrlausn um öflun og meðferð gagna við rannsókn máls, sönnunarfærslu svo og heimfærslu til refsiákvæða kynni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga um meðferð sakamála.

Fyrir Hæstarétti var deilt um aðild G og H að innflutningnum og framleiðslunni auk þátttöku þeirra í skipulagðri brotastarfsemi. Kröfðust þeir báðir sýknu en H krafðist einnig ómerkingar hins áfrýjaða dóms. Byggðu ákærðu dómkröfur sínar á því að ósannað væri að þeir hefðu verið notendur Encrochat - samskiptakerfisins undir notendanöfnunum Residentkiller og Nuclearfork og að sakfelling þeirra yrði ekki byggð á framlögðum gögnum úr þessu samskiptakerfi vegna óvissu um uppruna þeirra, varðveislu og áreiðanleika.

Að mati Hæstaréttar var framlagning Encrochat gagnanna í málinu ekki talin fela í sér brot á rétti ákærðu til réttlátrar málsmeðferðar. Vísaði Hæstiréttur m.a. til þess að ekkert hafi fram komið í málinu sem benti til þess að gagnanna hefði verið aflað í andstöðu við frönsk lög og að úrskurðir franskra dómstóla sæti ekki endurskoðun íslenskra dómstóla. Þá var jafnframt litið til þess að Frakkland er aðili að mannréttindasáttmála Evrópu og má gera ráð fyrir að öflun gagnanna samræmist þeim grunnsjónarmiðum um réttaröryggi sakaðra manna sem gengið er út frá í íslenskum rétti.

Ákærðu báru því við að ólíkt aðstæðum í Danmörku, þar sem danski ríkissaksóknarinn birti skrifleg fyrirmæli um það hvernig þessi gögn skyldu rannsökuð og notuð þar í landi, væri engum sambærilegum reglum til að dreifa hér á landi. Að mati Hæstaréttar gætti íslenska lögreglan að flestum sambærilegum atriðum og tiltekin eru í reglum danska ríkissaksóknarans og var þannig upplýst um uppruna gagnanna, tæknilegt eðli þeirra, gengið úr skugga um hvort frekari samskiptagögnum væri til að dreifa og greint frá mögulegum vafaatriðum í gögnunum. Vísaði Hæstiréttur til þess að ekki væri annað séð en að ákærðu hefðu staðið til boða að fá aðgang að rafrænu afriti gagnanna á lögreglustöð ef þeir hefðu leitað eftir því, en lögreglu er ekki talið skylt að afhenda sakborningum afrit rafrænna gagna, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 495/2009.

Ákærðu byggðu á því að gögnin væru óáreiðanleg þar sem þau hefðu verið óvarin og auðvelt að breyta þeim, en vísað var til textabrota sem Hæstiréttur taldi augljóst að ætti sér eðlilegar skýringar. Lögreglan hefði raðað samskiptunum í tímaröð og aðlagað textann að íslensku ritmáli en ekki voru gerðar efnislegar breytingar á samskiptunum.

Mat Hæstiréttur það svo að uppruni gagnanna, aðferð við öflun þeirra og meðferð af hálfu yfirvalda gefi ekki réttmætt tilefni til að draga áreiðanleika þeirra í efa. Vísaði Hæstiréttur til þess að heildarmat Landsréttar á sönnun á þeirri háttsemi sem ákærðu voru sakfelldir fyrir var ekki aðeins reist á hinum umfangsmiklu gögnum heldur jafnframt á ýmsum öðrum sönnunargögnum sem talin voru veita fyrrnefndu gögnunum mikinn stuðning, t.d. ljósmyndir, staðsetningar símtækja og munnlegur framburður.

Ómerkingarkrafa ákærða H var byggð á því að rannsókn málsins hefði ekki verið lokið við útgáfu ákæru heldur staðið yfir fram yfir meðferð málsins fyrir Landsrétti. Að mati Hæstaréttar voru ekki þeir ágallar á rannsókn lögreglu að ákæranda hafi ekki með réttu verið fært að taka ákvörðun um saksókn og byggja á henni málatilbúnað fyrir dómi með vísan til 1. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála. Rannsókn lögreglu að því er varðaði þátttöku erlendra manna í brotastarfseminni var ekki lokið en gögn um rannsóknaraðgerðir lögreglu erlendis voru lögð fram fyrir dómi í Landsrétti. Þá tókst lögreglu ekki að afla gagna úr farsíma ákærða G fyrr en við meðferð málsins í héraði og var skýrsla um þá rannsóknaraðgerð lögð fram við upphaf aðalmeðferðar. Í Landsrétti var einnig lögð fram skýrsla um staðsetningar notandans Nuclearfork og teknar skýrslur af þeim lögreglumönnum sem stóðu að rannsóknaraðgerðunum. Var því ekki talið að vörnum ákærða hefði verið áfátt þrátt fyrir síðbúna framlagningu þessara gagna og ekki hafi verið brotið gegn meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð.

Staðfest var niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærðu. Í niðurstöðu sinni fjallaði Hæstiréttur um ákvæði 175. gr. a almennra hegningarlaga er varðar skipulagða brotastarfsemi. Hæstiréttur vísaði til athugasemda við ákvæðið þar sem m.a. er að finna skilgreiningu á hugtakinu „skipulögð glæpasamtök“. Þar kemur fram að um sé að ræða samtök sem ekki eru mynduð með tilviljunarkenndum hætti til að fremja brot þegar í stað. Hlutverkaskipting meðlima samtakanna þarf ekki að vera formlega ákveðin eða þátttaka í þeim varanleg eða uppbygging þeirra fastmótuð. Að mati Hæstaréttar stóð undirbúningur og framkvæmd þessa brots yfir langt tímabil í mörgum löndum með aðkomu manna af ýmsu þjóðerni og var liður í alþjóðlegri brotastarfsemi. Vísaði Hæstiréttur til þess að brotið hafi verið vandlega skipulagt meðal annars með aðstoð flókinnar alþjóðlegrar upplýsingatækni. Þótt ekki yrði fullyrt hvernig uppbygging og hlutverkaskipting mannanna hafi verið fastmótuð var þátttakan ekki með tilviljunarkenndum hætti heldur um þaulskipulagða verkaskiptingu að ræða þar sem þeir sammæltust um framkvæmd brotsins. Taldi Hæstiréttur að þar með væru komin fram öll einkenni starfsemi skipulagðra brotasamtaka eins og þeim er lýst í 175. gr. a almennra hegningarlaga og Palermósamningsins.

Dómurinn var birtur á heimasíðu Hæstaréttar en einnig er hægt að flytjast yfir á slóð hans hér:

Ríkissaksóknari

Hafðu samband

Sími: 444 2900

Netfang: saksoknari@saksoknari.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga er opið frá
9 til 12 og 13 til 15

Föstudaga er opið frá 9 til 12

Heim­il­is­fang

Suðurlandsbraut 4, 6. hæð

108 Reykjavík

Kennitala 530175-0229