Fara beint í efnið

Feðrun barns

Hvernig verður barn feðrað

Foreldrar í hjónabandi eða skráðri sambúð

Ef barn fæðist í hjónabandi eða skráðri sambúð þá er eiginmaður eða sambúðarmaður sjálfkrafa skráður faðir barnsins á fæðingarvottorð þess og hefur þar með réttindi og skyldur gagnvart barninu. Hið sama gildir ef barn fæðist svo skömmu eftir skilnað, að það sé líklegt að það hafi verið getið í hjónabandinu. Þetta gildir þó ekki ef hjónin voru skilin að borði og sæng á getnaðartíma barnsins eða ef móðir þess giftist eða skráir sambúð sína í þjóðskrá, með öðrum manni, fyrir fæðingu barnsins.

Móðir hvorki gift eða í sambúð - Faðernisviðurkenning

Ef móðir er hvorki í hjónabandi né í skráðri sambúð við fæðingu barns verður að feðra barnið eigi síðar en sex mánuðum eftir fæðingu þess. 

Faðernisyfirlýsingu má fylla út af báðum foreldrum og tilkynna til Þjóðskrár. Móðir og faðir þurfa bæði að undirrita yfirlýsinguna áður en hún er send til Þjóðskrár. Þegar faðernisyfirlýsing hefur verið tilkynnt til Þjóðskrár er faðir barnsins samkvæmt yfirlýsingunni skráður á fæðingarvottorð barnsins. 

Faðernisyfirlýsingu má einnig gera hjá sýslumanni í því umdæmi sem annað hvort móðir eða lýstur faðir býr í.  Móðir leggur þá fram hjá sýslumanni  yfirlýsingu um hvern hún telur vera föður barnsins. Samhliða yfirlýsingu móður um faðerni barnsins til sýslumanns getur móðir gert kröfu um meðlag úr hendi föður.

Þegar yfirlýsing móður um föður barns berst sýslumanni er lýstur faðir boðaður í viðtal og óskað eftir afstöðu hans til viðurkenningar á faðerninu og til að fá fram afstöðu hans til meðlags. Ef lýstur faðir viðurkennir feðrun og samþykkir að greiða meðlag, undirritar hann yfirlýsingu í viðurvist sýslumanns. Lýstur faðir þarf að framvísa persónuskilríkjum er hann undirritar faðernisviðurkenningu.  Sýslumaður sér svo um að koma tilkynningu um feðrun til Þjóðskrá og málinu er þá lokið. Um innheimtu og greiðslu á meðlagi samkvæmt framansögðu, sjá hér.

Móðir getur einnig óskað sérstakrar bréflegar yfirlýsingar föður.  Skal undirritun föður þá staðfest af héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða tveimur vottum. Þar skal tekið fram að útgefandi yfirlýsingarinnar hafi ritað nafn sitt eða kannast við undirritun sína í viðurvist þess eða þeirra er undirskriftina staðfesta. Vitundarvottar skulu geta kennitölu sinnar eða eftir atvikum fæðingardags og heimilisfangs.

Ef lýstur faðir gengst við faðerninu en neitar að samþykkja greiðslu meðlags, fer ágreiningur um meðlagsgreiðslur í ferli úrskurðar, sjá umfjöllun um ágreining um meðlag hér. 

Lýstur faðir óskar eftir blóðrannsókn (DNA rannsókn)

Ef lýstur faðir neitar að samþykkja að hann sé faðir barnsins þá getur hann farið fram á að sýslumaður hlutist til um að blóðrannsókn (DNA rannsókn) verði framkvæmd, til að fá úr því skorið hvort hann sé faðir barnsins. Kostnaður fyrir slíkar rannsóknir greiðist af lýstum föður reynist hann faðir barnsins. Ef niðurstaðan er að lýstur faðir útilokast frá faðerni barnsins, fellur greiðsluskylda hans niður. DNA rannsókn er gerð á rannsóknarstofu Landspítalans en þegar niðurstaða liggur fyrir og staðfest að viðkomandi er faðir barnsins þá þarf lýstur faðir að mæta til viðtals hjá sýslumanni og gangast við faðerni. Ef blóðrannsókn sannar að viðkomandi er ekki faðir barnsins er málinu vísað frá sýslumanni.

Hvað ef lýstur faðir neitar að gangast við faðerni barns?

Ef ekki næst í lýstan föður, hann neitar að mæta til viðtals eða neitar því að vera faðir barnsins, verður sýslumaður að vísa málinu frá og móðir leiðbeint um að höfða dómsmál. Hafi farið fram blóðrannsókn og lýstur faðir neitar að gangast við niðurstöðu rannsóknarinnar er móður einnig leiðbeint að höfða dómsmál.

Meðlagsákvörðun samhliða feðrun

Ef ákveða á meðlag með barni samhliða feðrun, þarf að feðra barnið hjá sýslumanni í því umdæmi sem barnið hefur búsetu.





Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15