Fara beint í efnið

Fjarvinna

Skyldur atvinnurekenda og starfsfólks í fjarvinnu

Árangursríkt vinnuverndarstarf felur í sér samvinnu atvinnurekenda og starfsfólks, hvort heldur sem er á hefðbundinni starfsstöð eða í fjarvinnu.

Skyldur atvinnurekenda

Atvinnurekendum ber að tryggja að aðbúnaður starfsfólks sé heilsusamlegur og öruggur, þó svo að það vinni í fjarvinnu.

Atvinnurekendur þurfa, í samráði við starfsfólk, að tryggja að:

  • Starfsfólk fái upplýsingar um fjarvinnustefnu vinnustaðarins.

  • Starfsfólki séu ljósar þær hættur sem geta fylgt því að vinna í fjarvinnu hvort sem það er á heimili þess eða öðrum skilgreindum stað.

  • Umhverfi þar sem vinnan fer fram sé öruggt og hentugt fyrir vinnuna.

  • Verkefni sem sinna á henti vel til fjarvinnu.

  • Starfsfólki sé tryggður viðeigandi búnaður til starfa sinna og fái leiðbeiningar um notkun hans.

  • Sátt ríki um samskiptaviðmið og að þau séu virt af bæði stjórnendum og starfsfólki.

  • Áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum taki mið af því að starfsfólk vinni að hluta eða að fullu í fjarvinnu.

  • Störf og verkefni séu áhættumetin áður en þau hefjast eða ef aðstæður eða aðbúnaður breytist.

  • Viðeigandi úrbætur séu gerðar þegar áhættumat gefur til kynna að þess sé þörf og að vinnuumhverfið sé þannig í sífelldri endurskoðun.

  • Að starfsfólk fái leiðbeiningar, þjálfun og upplýsingar svo það geti sinnt störfum sínum með öruggum og heilsusamlegum hætti.

  • Störf séu skipulögð og unnin með sem öruggustum hætti, þannig að heilsu og velferð starfsfólks stafi ekki hætta af.

  • Starfsfólk fái fræðslu um vinnuvernd og skilgreindar séu leiðir til að tilkynna ef mál koma upp, hvort sem það varðar heilsu eða annað sem getur komið upp í fjarvinnu.

  • Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn vinnustaðarins fái viðeigandi fræðslu um vinnuvernd og áhættumat við fjarvinnu, þekki hlutverk sín með tilliti til fjarvinnu og fái svigrúm til þess að sinna þeim.

  • Neyðaráætlun vegna bruna, rýmingar, slysa eða annarra bráðatilvika sé til staðar þar sem fjarvinna fer fram.

Kröfur til vinnuaðstöðu

Atvinnurekendur þurfa að skilgreina hvaða tæki, búnað og aðföng starfsfólk þarf til þess að geta unnið á fjarvinnustöð og ná samkomulagi við starfsfólk um það sem til þarf. Þetta er svo skoðað og metið þegar áhættumat fyrir fjarvinnu er gert.

Meginreglan er sú að atvinnurekanda ber að útvega, tengja og halda við þeim búnaði sem nauðsynlegur er við reglulega fjarvinnu en mikilvægt er að skilgreina álitaefni tengd þessum atriðum í fjarvinnustefnu áður en fjarvinna hefst.

Tæki og búnaður sem um ræðir geta verið:
  • Stillanlegt vinnuborð og vinnustóll.

  • Tölvubúnaður, til dæmis tölvuskjár, lyklaborð, tölvumús og prentari.

  • Heyrnartól, ef oft þarf að svara símtölum eða taka þátt í fjarfundum.

  • Vinnusími.

  • Viðeigandi skrifstofubúnaður.

Miða skal við að áhættumat sé gert áður en fjarvinna hefst og endurskoðað ef aðstæður eða aðbúnaður breytist.

Skyldur starfsfólks

Starfsfólki ber að taka þátt í að stuðla að eigin öryggi og heilsu við störf sín.

Starfsfólk í fjarvinnu þarf að:

  • Kynna sér og fylgja leiðbeiningum atvinnurekanda síns.

  • Gæta að eigin öryggi og heilsu við störf sín, þar með talið að huga að búnaði sem atvinnurekandi hefur útvegað og láta vita ef búnaður þarfnast lagfæringar eða endurnýjunar.

  • Tilkynna atvinnurekanda um veikindi eða slys sem stafa af vinnu þess.

Kröfur til vinnuaðstöðu

Starfsfólk í fjarvinnu þarf að finna hentuga aðstöðu til vinnu, hvort sem það er inni á heimilinu eða á öðrum skilgreindum stað.

Starfsfólk þarf að huga að því að fjarvinnustöðin eða aðstaðan sé hentug, til dæmis að:
  • Lýsing, hitastig og loftræsting sé hæfileg til þess að hægt sé að vinna á þægilegan hátt.

  • Vinnustöðin sé snyrtileg.

  • Ekki séu truflanir vegna hávaða og annarra þátta.

  • Gólf séu hrein, þurr og án hættu á að renna, hrasa og detta.

  • Rafmagnsinnstungur séu staðsettar þannig að snúrur liggi ekki á gólfum og að ekki verði yfirálag tengt rafmagni, til dæmis á fjöltengi.

  • Fullnægjandi netsamband sé til staðar og vinnusími sé til afnota við vinnu.

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið

Vinnueftirlitið

Hafðu samband

Sími: 550 4600

Netfang: vinnueftirlit@ver.is

Afgreiðslu­tími þjón­ustu­vers

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Kennitala

420181-0439