Fara beint í efnið

Þú sækir um húsnæðisbætur á Mínum síðum á vefsíðu HMS (Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar).

Í umsókninni þarf að koma fram:

  • fastanúmer eignarinnar

  • kennitölur heimilisfólks

  • kennitala leigusala

  • leiguverð

  • leigutími

Eftir að umsókn er send inn

Þegar þú hefur sent umsóknina færðu tölvupóst til staðfestingar.

Annað heimilisfólk, 18 ára og eldri, sem býr á heimilinu þarf að gefa samþykki fyrir upplýsingaöflun. Þú þarft að láta það vita að það þurfi að skrá sig inn á Mínar síður HMS og gefa samþykki.

Ef það vantar einhver gögn færðu tilkynningu í tölvupósti um að umsókn hafi verið frestað og að þú eigir bréf á Mínum síðum HMS með frekari upplýsingum. Það er mikilvægt að fylgjast með og svara innan 15 daga því annars getur umsókn verið synjað.

Synjun

Ef umsóknin uppfyllir ekki skilyrði er henni synjað. Ef þér finnst synjunin vera á röngum forsendum geturðu beðið um endurupptöku. Þá þarftu að rökstyðja mál þitt og senda með fylgigögn ef við á. Þú getur sent skilaboð gegnum Mínar síður HMS eða með tölvupósti á hms@hms.is.

Afgreiðslutími

Umsóknum sem berast fyrir 20. hvers mánaðar er svarað í síðasta lagi um næstu mánaðamót. Þegar umsókn er afgreidd eða ef gögn vantar færðu skilaboð með tölvupósti um að skjal bíði þín á Mínum síðum HMS.

Greiðslur húsnæðisbóta

Húsnæðisbætur eru greiddar fyrsta dag hvers mánaðar fyrir mánuðinn á undan inn á bankareikning sem tiltekinn er í umsókn. Bæturnar eru ekki greiddar afturvirkt.

Fyrsti greiðsludagur er fyrsta dag næsta mánaðar eftir að umsókn er samþykkt.

Það er mikilvægt að sækja um sem fyrst þótt leigusamningur sé ekki tilbúinn þar sem húsnæðisbætur eru greiddar í fyrsta lagi mánuðinn eftir umsóknarmánuð.

Dæmi:

  • Þú sækir um í janúar og leigusamningur er frá 1. janúar. Þú færð greiddar bætur 1. febrúar fyrir janúarmánuð.

  • Þú sækir um í janúar og leigusamningurinn er frá 1. desember. Þú færð greiddar bætur 1. febrúar eingöngu fyrir janúarmánuð.

Endurnýjun

Ef að þú skiptir um leiguhúsnæði þarftu að endurnýja umsókn um húsnæðisbætur. Annars gildir sama umsókn sem hægt er að uppfæra ef forsendur breytast.

Eyðublöð á pappírsformi

Ertu ekki með rafræn skilríki? Þá getur þú náð í eyðublöð á PDF og sent á hms@hms.is eða skilað þeim á skrifstofu HMS, Borgartúni 21, 105 Reykjavík.

Umsókn um húsnæðisbætur