Fara beint í efnið

Þinglýsing skjala

Í stuttu máli

Þinglýsing felur í sér opinbera skráningu réttinda á eignum til þess að þau njóti réttarverndar gagnvart þriðja manni.

Ferli þinglýsinga

Skjöl sem á að þinglýsa skal afhenda til sýslumanns í því umdæmi sem við á í tvíriti, frumriti og eintaki á löggiltum pappír sem sýslumenn halda eftir. Frumriti er skilað til baka og er á ábyrgð þess sem óskar eftir þinglýsingu að sækja það til sýslumanns. Skjöl eru jafnframt send í ábyrgðarpósti að beiðni og á ábyrgð þinglýsingarbeiðanda. Þinglýsingarbeiðandi greiðir burðargjald við móttöku bréfsins á pósthúsi.

Hafa þarf í huga hjá hvaða sýslumanni skjal er afhent til þinglýsingar. Það ræðst af því hvers konar eign skjal varðar. Sé til dæmis um fasteign í Reykjavík að ræða skal skjal afhent sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Sé um bifreið að ræða og eigandi hennar er með lögheimili í Vestmannaeyjum skal þinglýsa skjalinu í Vestmannaeyjum.

Hægt er að fylgjast með stöðu þinglýsinga hjá Sýslumanningum á höfuðborgarsvæðinu

Hvað er hægt að þinglýsa á

  • Fasteignir og fasteignaréttindi (í umdæmi sýslumanns þar sem eignin er staðsett).

  • Skip (í umdæmi sýslumanns þar sem skip er skráð).

  • Flugvélar (eingöngu í umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu).

  • Ökutæki (í umdæmi sýslumanns þar sem eigandi á lögheimili).

  • Lausafé, sem skráð er á kennitölu rétthafa þess (í umdæmi sýslumanns þar sem eigandi á lögheimili). 

Upplýsingakröfur

  • Kennitölur aðila á skjali.

  • Dagsetning undirskriftar.

  • Afhendingadag eignar.

  • Fasteignanúmer eignar, skráninganúmer ökutækja, skipaskránúmer skipa

  • Tveir aðilar þurfa að votta rétta dagsetningu, undirskrift og fjárræði aðila. Vottar þurfa að skrifa nafn sitt og kennitölu á skjalið.

  • Ef þinglýsa á veðskuldabréfi eða kaupsamningi/afsali um fasteign skal skjalið innihalda yfirlýsingu um hvort sá er skjal stafar frá sé giftur og hvort eign sé bústaður fjölskyldu hans (þar með talið sumarbústaður) eða notuð við atvinnurekstur hjóna eða sé ætluð til þess.

Ekki er um tæmandi talningu að ræða. Um efni skjala nánar fer eftir tegund þeirra.

Fylgigögn

Eftirfarandi fylgigögnum gæti þurft að skila með:

  • Þinglýstu umboði ef eigandi skrifar ekki sjálfur undir skjölin.

  • Yfirlýsing um fyrstu kaup einstaklings að íbúðarhúsnæði.

  • Annað samkvæmt leiðbeiningum sýslumanns, veltur á efni skjals.

Kostnaður

Þau gjöld sem greiða þarf við þinglýsingu nefnast þinglýsingargjald og eftir atvikum stimpilgjald. 

Þinglýsingargjald 

Þinglýsingargjald á hvert skjal er 2.700 krónur. 

Undantekningar á gjaldtöku: 

  • Ekki þarf að greiða gjald fyrir þinglýsingu úrskurða um sviptingu sjálfræðis, fjárræðis eða úrskurða um brottnám lögræðissviptingar

  • Hafi ráðsmanni verið falin umsjón fasteignar, loftfars, skráningarskylds skips eða ökutækis skal skipun hans þinglýst á viðkomandi eign. Ekki er tekið gjald af þeirri þinglýsingu.

  • Ef eign er seld nauðungarsölu skal sýslumaður gera ráðstafanir til þess að um það sé getið í þinglýsingabók. Sama skylda hvílir á skiptastjóra við upphaf gjaldþrotaskipta, opinberra skipta á búi og upphaf nauðasamnings. Ekki er greitt fyrir þá þinglýsingu. 

  • Sé gerð skrifleg yfirlýsing um greiðsluaðlögun um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði skal henni þinglýst án kostnaðar. 

  • Ekki þarf að borga þinglýsingargjald af kaupmála þegar honum er þinglýst í sama umdæmi og hann er skráður. Varði kaupmáli eign í öðru umdæmi skal greiða þinglýsingargjald. 

Stimpilgjald

Stimpilgjald  greiðist af skjölum sem varða eignayfirfærslu fasteigna hér á landi, til dæmis afsölum, kaupsamningum og gjafagerningum.

Stimpilgjald er reiknað út frá matsverði eignar eins og það er skráð í fasteignaskrá við útgáfu skjals. Stimpilgjald miðast við byggingarstig eignar við afhendingu. 

Af gjaldskyldum skjölum skal greiða:

  • 0,8% af fasteignamati ef kaupandi er einstaklingur

  • 1,6% af fasteignamati ef kaupandi er lögaðili

Á þessu eru nokkrar undantekningar:

  • Þegar um er að ræða fyrstu kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði greiðist hálft stimpilgjald - yfirlýsing um fyrstu kaup þarf að fylgja með.

  • Ef fasteign er seld veðhafa við nauðungarsölu greiðir veðhafi hálft stimpilgjald af verðmæti eignarinnar hvort sem hann er einstaklingur (0,4%) eða lögaðili (0,8%)

  • Ekki er greitt stimpilgjald af eignayfirlýsingum vegna samruna félaga. Samrunaáætlun þarf að fylgja skjali til þinglýsingar ásamt vottorði úr fyrirtækjaskrá sem staðfestir að samruni hafi átt sér stað.

Stimpilskyldu skjali skal þinglýsa innan tveggja mánaða frá undirritun. Ef sá tími er liðinn er innheimt stimpilsekt, sem verður að hámarki 10% upphaflegs stimpilgjalds til viðbótar upprunalegu stimpilgjaldi.

Aflýsing húsaleigusamninga

Þinglýstum húsaleigusamningi þarf að aflýsa við lok leigutíma og verður nýjum samningi ekki þinglýst á eignina fyrr en það hefur verið gert. 

Mismunandi reglur gilda um aflýsingu húsaleigusamninga eftir því hvort þeir eru tímabundnir eða ótímabundnir. 

Tímabundnir samningar

Þegar leigutíma lýkur skal leigjandi láta aflýsa samningnum. Að sjö dögum liðnum eftir lok leigutíma skal aflýsa samningi að kröfu leigusala. 

Þegar leigutíma húsaleigusamnings lýkur, eða þegar fólk flytur úr eigninni áður en leigutímanum lýkur þarf að aflýsa húsaleigusamningnum. Árita þarf frumrit samnings um aflýsingu og báðir aðilar samnings þurfa að skrifa undir áritunina ef leigutími er ótímabundinn eða ef samningstími er ekki útrunninn. Ekki er tekið gjald fyrir aflýsingu með þessum hætti.

Ef frumrit samnings er týnt þurfa báðir aðilar að undirrita yfirlýsingu og láta þinglýsa henni. Greiða þarf þinglýsingargjald af slíkri yfirlýsingu.

Kæruheimildir

Stimpilgjald

Rísi ágreiningur um stimpilgjald samkvæmt lögum þessum er gjaldanda heimilt að kæra ákvörðun sýslumanns til yfirskattanefndar. Kærufrestur er þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar sýslumanns um álagningu stimpilgjalds. 

Kæran þarf að vera skrifleg og þarf að koma fram hvaða atriði ákvörðunar verið er að kæra ásamt rökstuðningi. Með kærunni þurfa að fylgja gögn til stuðnings kærunni ásamt hinni kærðu ákvörðun sýslumanns, fylgigögn þessi þurfa að vera í frumriti eða endurriti.

Ákvarðanir þinglýsingastjóra

Samkvæmt 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 er hægt að bera allar ákvarðanir þinglýsingastjóra undir héraðsdóm í lögsagnarumdæmi þinglýsingastjórans.  Skal það gert áður en fjórar vikur eru liðnar frá vitneskju þinglýsingarbeiðanda um ákvörðunina.

Frávísun frá þinglýsingu

Sé skjal haldið einhverjum þeim annmörkum sem varða því að ekki er hægt að þinglýsa skjalinu er því vísað frá þinglýsingu.  Er skjalið þá endursent þinglýsingarbeiðanda ásamt rökstuðningi sem gerir grein fyrir ástæðum frávísunarinnar.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15