Fara beint í efnið

Samningar – réttindi og skyldur neytenda

Þegar tilboð eða pöntun er samþykkt er bindandi samningur kominn á. Meginreglan er að samningar séu bindandi þeim skilmála sem um er samið, en til eru undantekningar, til dæmis ef aðili er ófjárráða.

Samningar eru bindandi nema...

Samningur getur komist á þótt kaupandi og seljandi hafi ekki talast við, eins og oft gerist til dæmis við kaup í matvörubúð.

Samningi verður þó ekki komið á með þegjandi samþykki neytanda. Seljandi getur t.d. ekki sent neytanda tilboð sem teljist bindandi samningur nema neytandi afþakki innan ákveðins frests.

Lestu samningsskilmála!
Þegar þú skrifar undir samning samþykkir þú allt sem þar kemur fram, líka smáa letrið!
Frestaðu því að gera samning ef eitthvað er óljóst.

Hvort sem neytandi hefur lesið samningsskilmála eða ekki er hann bundinn þeim. Seljandi þarf einungis að koma samningsskilmálum í hendur kaupanda áður en samningur er undirritaður.

Hvort sem neytandi hefur lesið samningsskilmála eða ekki er hann bundinn þeim. Seljandi þarf einungis að koma samningsskilmálum í hendur kaupanda áður en samningur er undirritaður.

Sumir samningar verða þó ekki bindandi, til dæmis ef samið er:

  • við börn (undir 18 ára) eða aðra ófjárráða aðila, nema foreldrar eða fjárhaldsmaður samþykki samninginn. Samningar og kaup sem nema ekki hærri fjárhæð en unglingar hafa almennt handa á milli myndu þó ekki teljast ógildir.

  • um eitthvað sem er ólöglegt. Slíkur samningur kann að vera refsiverður.

Munnlegir samningar

Munnlegir samningar eru yfirleitt jafngildir skriflegum samningum. Erfitt getur þó verið að sanna hvað samið hefur verið um ef ekki liggur fyrir skriflegur samningur.

Í sumum tilvikum er lagaskylda að gera samninga skriflega, til dæmis þegar keypt er fasteign.

Staðlaðir samningar

Staðlaðir samningar, sem seljandi útbýr fyrirfram, eiga að vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu staðlaðs samnings á að túlka samninginn neytandanum í hag.

Óréttmætir skilmálar

Gefin hefur verið út leiðbeinandi skrá um óréttmæta samningsskilmála sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Skráin er aðeins leiðbeinandi en ekki tæmandi talning á þeim atriðum sem geta valdið því að samningsskilmálar séu óréttmætir.

Breyting eða ógilding

Til þess að samningi verði breytt verða aðilar að semja upp á nýtt. Í vissum tilvikum er hægt að ógilda samninga eða víkja þeim til hliðar að hluta eða öllu leyti, til dæmis ef:

  • samningurinn er bersýnilega óhagkvæmur, ósanngjarn gagnvart neytanda eða raskar til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag.

  • neytandinn er bundinn við samninginn óeðlilega lengi og uppsögn ótímabundins samnings er gerð óeðlilega erfið.

  • samningsskilmálar eru óréttmætir að öðru leyti.

  • samningi er komið á með því að annar aðilinn er neyddur til þess.

  • svik hafa verið viðhöfð, eða bágindi, einfeldni eða fákunnátta annars manns hefur verið notuð til að koma á samningi.

  • það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning fyrir sig.

Ekki er hægt að víkja samningi til hliðar einhliða, heldur verður að semja um það, eða leita aðstoðar úrskurðarnefndar eða dómstóla til að fá samningnum hnekkt.

Vert að skoða

Lög og reglur

Þjónustuaðili

Neyt­enda­stofa