Fara beint í efnið

Kaupmáli

Allar eignir hjóna kallast annað hvort hjúskapareignir eða séreignir.

Hjúskapareignir koma almennt til helmingaskipta milli hjóna við skilnað eða andlát, en það gera séreignir hvort aðilans um sig hins vegar ekki.

Kaupmáli er samningur sem hjón eða hjónaefni geta gert sína á milli og er tilgangurinn oftast sá að gera eign að séreign annars hjóna.

Hægt er að taka fram í kaupmála að séreignir eigi til dæmis að hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu eða ef hjón eignast barn saman. 

Verðmæti sem koma í stað séreignar til dæmis við sölu hennar, verða einnig séreign nema annars sé getið í kaupmála.

Kaupmáli hefur ekki áhrif á möguleika skuldheimtumanna til fullnustu krafna. Skuldheimtumenn annars hjóna geta aldrei gengið að eignum hins, hvorki séreignum né hjúskapareignum. 

Ákvæðum kaupmála er hægt að breyta eða fella niður með nýjum kaupmála.

Formkröfur

Strangar kröfur eru gerðar til forms kaupmála. Hann þarf að vera skriflegur og undirritun hjóna eða hjónaefna þarf að vera vottuð af:

  • lögbókanda

  • lögmanni

  • eða tveimur vottum sem eru viðstaddir undirritun.

Vottar skrifa nafn sitt og kennitölu á kaupmálann við undirritun. Það verður að koma fram í vottatexta að um kaupmála sé að ræða. Vottarnir skulu vera lögráða og staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum.

Sýslumenn annast einungis skráningu og vottun kaupmála sem lögbókendur, en þarfnist hjón eða hjónaefni aðstoðar við gerð kaupmála er hægt að leita aðstoðar lögmanna.

Skráning kaupmála

Kaupmáli er einungis gildur ef hann er formlega skráður hjá sýslumanni og þarf að skrá hann í því umdæmi sem hjónin eða hjónaefnin eiga lögheimili. Ef þau eiga ekki lögheimili á Íslandi skal skrá kaupmálann hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. 

Ef kaupmáli varðar fasteign, skip eða loftfar þarf að þinglýsa kaupmálanum á viðkomandi eign í því umdæmi sem hún er skráð.  

Kaupmálar þurfa að uppfylla formskilyrði um þinglýsingu skjala.

Sýslumaðurinn á Vesturlandi heldur skrá um kaupmála á landsvísu aftur til ársins 2008 og getur veitt upplýsingar til viðkomandi aðila um kaupmála sem þeir hafa gert. Hann sér einnig um að birta tilkynningu um skráningu kaupmála í Lögbirtingablaðinu. Þar koma fram nöfn aðila, kennitölur, lögheimili og skráningardagur. 

Kaupmálar eru opinber gögn og því geta  allir kynnt sér efni þeirra.

Kostnaður

Það kostar 9.700 kr. að skrá kaupmála hjá sýslumanni. Greiða má á staðnum eða millifæra á reiknings þess embættis þar sem skráning er gerð.

Ef kaupmálinn segir til um eignayfirfærslu á fasteign eða hluta fasteignar þarf að greiða stimpilgjald sem nemur 0,8% af fasteignamati eignarinnar.

Ef það á að þinglýsa kaupmálanum þarf að greiða þinglýsingargjald sem er 2.700 kr.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Tengt efni

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15