Fara beint í efnið

11. september 2020

Opin ráðstefna um stafræna framtíð hins opinbera

Ráðstefna um stafræna framtíðarsýn hins opinbera og nýjungar sem unnið er að til að stórefla stafræna þjónustu verða kynntar á ráðstefnu Stafræns Íslands „Tengjum ríkið“ fimmtudaginn 24. september næstkomandi.

Tengjum ríkið

Meðal þess sem fjallað verður um er nýr og endurbættur vefur Ísland.is, upplýsinga- og þjónustuveitu opinberra aðila á Íslandi, þar sem hægt er að nálgast margvíslega þjónustu í einni gátt.

Á ráðstefnunni verður nýr vefur Ísland.is, sem senn verður aðgengilegur, kynntur en í honum felast fjölmörg tækifæri fyrir opinberar stofnanir til að bæta þjónustu sína.

Þar munu samstarfsaðilar Stafræns Íslands í stofnunum og ráðuneytum fara yfir reynsluna af þeim verkefnum sem eru í vinnslu og þeim sem þegar er lokið. Þá munu hugbúnaðarfyrirtæki sem eru í samstarfi við Stafrænt Ísland fjalla um öryggismál, rekstrarumhverfi, hönnunarkerfi og gagnamál.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, opnar ráðstefnuna og Andri Heiðar, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands, fer yfir framtíðarsýn Stafræns Íslands.

Helsti fyrirlesari ráðstefnunnar er David Eaves frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Hann sérhæfir sig í stafrænni vegferð ríkja og hyggst fjalla um sóknarfærin á Íslandi í erindi sínu Digital Transformation – Global Trends and Iceland’s Potential.

Að auki verða á ráðstefnunni um 15 örfyrirlestrar frá stofnunum og öðrum samstarfsaðilum.

Skráning á ráðstefnuna er í fullum gangi en sökum stöðu líðandi stundar verða örfá sæti í boði í sal. Ráðstefnunni verður einnig streymt beint. Mikilvægt er að þátttakendur skrái sig hafi þeir hug á að tryggja sæti í sal eða fá upplýsingar um streymi ráðstefnunnar þegar nær dregur. Forskráning gildir sem full skráning og mun tryggja sæti, upplýsingar og
aðgengi að ráðstefnunni.

Ráðstefnan fer fram í Hörpu 24. september frá kl. 13–17.
Skráning á ráðstefnuna fer fram hér.