Fara beint í efnið

9. apríl 2024

Hefja kaup eigna í Grindavík í þessari viku

Fasteignafélagið Þórkatla mun hefja kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík í þessari viku en 644 umsóknir hafa þegar borist félaginu.

Grindavik yfirlitsmynd

Fasteignafélagið Þórkatla mun hefja kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík í þessari viku en 644 umsóknir hafa þegar borist félaginu.

Markmið félagsins er að klára afgreiðslu þorra þeirra umsókna sem þegar hafa borist með kaupsamningum í þessum mánuði. Enn er þó ekki hægt að tímasetja kaup einstakra eigna. Hluti umsóknanna mun þarfnast sérstakrar skoðunar og mun afgreiðsla þeirra taka lengri tíma. Hægt verður að sækja um að selja Þórkötlu eignir út þetta ár.

Verkefnið í heild sinni er frábrugðið hefðbundnum fasteignaviðskiptum að því leyti að það hefur kallað á gerð samkomulags um eftirgjöf á sjálfsskuldarábyrgð lántaka við 18 lánveitendur, sem er forsenda fyrir kaupum félagsins. Í ljósi umfangsins hefur frá upphafi verið miðað við að kaupin fari fram í stafrænu ferli þ.m.t. undirritun og þinglýsing kaupsamninga.

Í heildina er um að ræða tugmilljarða fjárfestingu sem Þórkatla fasteignafélag annast fyrir hönd stjórnvalda. Þetta mikla umfang hefur kallað á talsverðan undirbúning og þróun verkferla við frágang kauptilboða, þinglýsingar og útborganir til seljenda, svo dæmi séu tekin.

Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu: „Við leggjum áherslu á að vinna þetta hratt til draga úr óvissu þeirra sem eiga fasteignir í bænum og þurfa að finna sér annað framtíðarhúsnæði. Þá leggjum við áherslu á að eiga samstarfum mögulega leigu og eftir atvikum afnot eða aðgengi að húsnæðinu eftir að kaupin ganga í gegn. Við viljum afgreiða öll mál eins skjótt og kostur er og munum bregðast við öllum þeim mörgu fyrirspurnum og tölvupóstum sem okkur hafa borist.“