Fara beint í efnið

9. júlí 2020

Ferðagjöfinni tekið fagnandi

Mikil ásókn hefur verið í að sækja Ferðagjöfina en nú fyrstu vikuna hafa þegar um 35 þúsund manns sótt sína Ferðagjöf á Ísland.is. Enn eru ferðaþjónustufyrirtæki að bætast við en þegar eru 628 fyrirtæki skráð til leiks og þau er að finna um land allt. Markmiðið er að styðja við íslenska ferðaþjónustu og hvetja Íslendinga til að ferðast um innanlands og njóta þess sem landið hefur uppá að bjóða. Þegar hafa 2940 nýtt sér sína Ferðagjöf.

Ferðagjöf

Allir þeir sem erum með lögheimili á Íslandi og fæddir eru 2002 eða fyrr fá 5000kr Ferðagjöf. Um er að ræða stafræna, pappírslausa og umhverfisvæna Ferðagjöf en fólk hefur val um að fá gjöfina í smáforrit Ferðagjafarinnar eða nýta strikamerkið sitt sem er að finna á Ísland.is. Strikamerkið uppfærist á 15 mínútna fresti til að koma í veg fyrir misnotkun og því ekki hægt að prenta það út eða taka mynd af því.
 
Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með stefnumótun stjórnvalda um upplýsingatækni. Á vegum ráðuneytisins er starfrækt verkefnastofa um Stafrænt Ísland sem vinnur að framgangi verkefna þvert á stofnanir ríkis og sveitarfélaga með það að markmið að stórefla stafræna þjónustu.
 
Stafrænt Ísland er einn þeirra aðila sem kemur að Ferðagjöfinni ásamt Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu og Ferðamálastofu. Hlutverk Stafræns Íslands er annars vegar bakendalausn fyrir ferðaþjónustuaðila sem og halda utan um og úthluta Ferðagjöfinni til einstaklinga á Ísland.is. Síðustu vikur hefur Stafrænt Ísland ásamt samstarfsaðilum staðið fyrir fjölda upplýsinga- og undirbúningsfunda með ferðaþjónustufyrirtækjum til að tryggja að þau verði vel undirbúin að taka á móti öllum þeim fjölda Íslendinga sem nú hyggst njóta þess að ferðast um landið sitt.
 
Upplýsingar um Ferðagjöfina og þá fjölbreyttu ferðaþjónustu sem er í boði um allt land er að finna inná ferdalag.is.