Fara beint í efnið

Fjölbýli

Ýmis réttindi og skyldur fylgja því að eiga eða búa í fjöleignarhúsi en það eru fjölbýlishús með íbúðum sem fleiri en einn eiga.

Fjöleignarhús

Reglur um fjöleignarhús fjalla meðal annars um:

  • skilgreiningar á séreign og sameign,

  • umgengni í nábýli,

  • húsfélög og starfsemi þeirra og

  • hússjóði og kostnaðarskiptingu.

Húsfélög samanstanda af öllum eigendum fjöleignarhúsa og þarf ekki að stofna þau sérstaklega eða formlega.

Eigendum fjöleignarhúsa er skylt að taka þátt í starfsemi húsfélaga.

Allar ákvarðanir er lúta að rekstri, viðhaldi og ráðstöfun sameignar ber að taka á húsfundum.

Ákveðnar reglur gilda um fundarboðun, atkvæðagreiðslur og annað er að ákvarðanatöku snýr.

Stofna á hússjóð til að standa straum af sameiginlegum kostnaði ef minnst fjórðungur eigenda fer fram á það. Hússjóður verður að hafa sérreikning.

Ef ágreiningur rís á milli eigenda fjöleignarhúsa er varðar réttindi þeirra og skyldur má leita álits hjá kærunefnd húsamála. Málsmeðferð er málsaðilum að kostnaðarlausu.

Eignaskiptayfirlýsingar

Eigendum fjöleignarhúsa ber að láta gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið. Þær leggja grundvöll að réttindum og skyldum hvers eiganda.

Í eignaskiptayfirlýsingu kemur fram skipting húss í séreignir og sameign, eignarhlutur hvers og eins og hlutdeild í kostnaði.

Ekki er leyfilegt að selja eign í fjöleignarhúsi án þess að eignaskiptayfirlýsing liggi fyrir.

Þeir sem gera eignaskiptayfirlýsingar verða að hafa leyfi félagsmálaráðherra.

Byggingarfulltrúar sveitarfélaga fara yfir og samþykkja eignaskiptayfirlýsingar. Samþykktum eignaskiptayfirlýsingum á að þinglýsa og þær eru aðgengilegar hjá sýslumannsembættum.

Til minnis

Láta gera eignaskiptayfirlýsingu og þinglýsa henni.

Taka ákvarðanir um málefni sameignar samkvæmt reglum um húsfélög.

Stofna hússjóð með sérstakri kennitölu og reikningi fari tilskilinn fjöldi eigenda fram á það.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir