Fara beint í efnið

Húsnæðismál

Fasteignaviðskipti

Margs þarf að gæta við kaup og sölu á húsnæði enda aleiga fólks oft í húfi.

Kaup og sala

Aðeins þeir sem hafa löggildingu frá sýslumanni sem fasteignasalar mega hafa milligöngu um fasteignaviðskipti. Misjafnt er hvaða gjald er sett upp fyrir slíka þjónustu.

Einstaklingum er heimilt að sjá um fasteignaviðskipti sín án milligöngumanns en verða að gæta þess að rétt sé staðið að málum í hvívetna enda miklir hagsmunir að veði.

Seljandi á að veita glöggar upplýsingar um ástand eignarinnar og gæta þess að sölu- og kynningargögn séu í samræmi við það.

Kaupandi tryggir betur stöðu sína með því að skoða eign vandlega áður en kauptilboð er gert.

Æskilegt er að kaupandi og seljandi kynni sér hvaða ákvæði gildi um mögulega ábyrgð á göllum á eign.

Ekki er leyfilegt að selja eign í fjöleignarhúsi nema eignaskiptayfirlýsing hafi verið gerð.

Annað hjóna má ekki selja eða ráðstafa íbúðarhúsnæði sem þau búa í nema með samþykki hins. Sama gildir um eign hjóna sem atvinna annars eða beggja fer fram í.

Samningar og skjöl

Í kauptilboði verður að gæta þess að hafa viðeigandi fyrirvara þegar þess þarf með, svo sem um lánsloforð og greiðslufyrirkomulag.

Viðeigandi skjölum þarf að þinglýsa eða aflýsa hjá sýslumanni í því umdæmi sem fasteignin er. Sé það ekki gert er réttur kaupanda ekki fulltryggður.

  • Kaupsamningi, veðskuldabréfum (lánum) og afsali eignar á að þinglýsa.

  • Uppgreiddum lánum og öðrum skjölum sem lokið hafa hlutverki sínu á að aflýsa.

Ráðlegt er að halda til haga öllum gögnum er viðkoma fasteignaviðskiptum.

Til minnis

Kynna sér gjaldskrá vegna þjónustu fasteignasala áður en viðskipti eiga sér stað.

Kanna ástand eignar og gera athugasemdir áður en kauptilboð er gert.

Setja viðeigandi fyrirvara í kaup- og gagntilboð því þau eru bindandi.

Gæta þess að rétt sé gengið frá öllum skjölum er viðkoma fasteignaviðskiptum og varðveita þau.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir