Fara beint í efnið

Barnabætur vegna barna búsettra erlendis (EES barnabætur)

Barnabætur eru almennt aðeins greiddar með börnum sem búsett eru á Íslandi. Frá þessu eru undantekningar. Greiddar eru barnabætur með börnum sem ekki eru heimilisföst hér á landi ef framfærandi barnanna:

  • starfar á Íslandi og er hér að fullu skattskyldur og er ríkisborgari í landi innan evrópska efnahagssvæðisins (EES), aðildaríkis stofnsamnings fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) eða í Færeyjum.

  • er búsettur erlendis en sjúkratryggður á Íslandi samkvæmt lögum um almannatryggingar.

  • starfar erlendis fyrir aðila sem greiðir tryggingagjald á Íslandi.

Börnin þurfa að vera búsett innan EES, aðildarríkis EFTA eða í Færeyjum.

Framfærendur

Eingöngu framfærendur barna eiga rétt á greiðslu barnabóta. Þau sem greiða meðlag með barni teljast ekki sem framfærandi í þessu sambandi.

Umsókn

Sækja þarf um EES-barnabætur árlega í lok hvers tekjuárs með eftirfarandi umsóknareyðublaði RSK 3.20.

Umsókn um barnabætur á Íslandi 2024

Gögn með umsókn

Umsækjandi skal leggja fram fullnægjandi gögn frá bæru stjórnvaldi í því ríki sem börnin eru heimilisföst. Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja með umsókninni.

Fyrir umsækjanda sem er giftur eða í sambúð

  • Fæðingarvottorð barns/barna (á ekki við ef barn er fætt á Íslandi og/eða er með íslenska kennitölu)

  • Vottorð um búsetu barna, maka og hjúskaparstöðu í árslok tekjuársins sem umsóknin varðar.

  • Tekjuvottorð eða staðfest afrit af skattframtali maka vegna tekjuársins.

  • Staðfesting á greiðslu barnabóta í búseturíki barns vegna tekjuársins.

Ef báðir foreldrar búa á Íslandi, þarf að leggja fram vottorð um hjá hverjum barnið býr og kvittanir fyrir millifærslu fjármuna til umönnunaraðila barns.

Fyrir umsækjanda sem er einstætt foreldri:

  • Fæðingarvottorð barns/barna (á ekki við ef barn er fætt á Íslandi og/eða er með íslenska kennitölu)

  • Vottorð um búsetu og hjúskaparstöðu í árslok tekjuársins sem umsóknin varðar. Búsetuvottorð þarf að sýna hvar barn býr og með hverjum.

  • Tekjuvottorð eða staðfest afrit af skattframtali í búseturíki vegna tekjuársins.

  • Staðfesting á greiðslu barnabóta í búseturíki barns vegna tekjuársins.

  • Kvittanir fyrir millifærslu fjármuna til umönnunaraðila.

  • Staðfesting á um forsjá barns eða forsjársamningur.

Lífeyrisþegar búsettir erlendis

Þau sem búsett eru í öðru EES-ríki og fá greiðslur frá íslenska almannatryggingakerfinu kunna að eiga rétt á EES-barnabótum frá Íslandi. Þetta á við um greiðslur frá til dæmis:

  • Tryggingastofnun

  • Vinnumálastofnun

  • Fæðingarorlofssjóði

Sækja þarf sérstaklega um á umsóknareyðublaði RSK 3.20.  Standa ber skil á sömu fylgiskjölum og nefnd eru hér að ofan. Þó er ekki þörf á að skila fæðingarvottorði fyrir börn sem eru fædd eða hafa búið á Íslandi. Sé barn búsett hjá einstæðu foreldri þarf ekki að skila kvittunum fyrir millifærslum til umönnunaraðila né heldur vottorði um forsjá barns.

Starf í öðru EES-ríki og barn/börn búsett á Íslandi

Þau sem bera ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, en starfa í öðru EES-ríki og geta átt rétt á barnabótum í atvinnuríkinu, jafnvel þó börnin séu heimilisföst á Íslandi.

Ef maki býr á Íslandi og starfar hér telst réttur til barnabóta vera fyrst hér á landi, en ef barnabætur eru hærri í hinu ríkinu þá ber því ríki að greiða mismuninn.

Þjónustuaðili

Skatt­urinn