Fara beint í efnið
Ísland.isDómstólar og réttarfar

Lögbundin gjafsókn

Gjafsókn er það kallað þegar kostnaður við dómsmál einstaklings er greiddur úr ríkissjóði. Hugtakið gjafsókn á bæði við um gjafsókn og gjafvörn og er aðeins veitt einstaklingum, ekki lögaðilum, svo sem fyrirtækjum eða félögum. Nánar í lögum um meðferð einkamála. Einstaklingar geta sótt um almenna gjafsókn eða lögbundna gjafsókn sem þýðir að mælt er fyrir gjafsókninni í öðrum lögum.

Meðfylgjandi er upptalning á helstu lagaákvæðum sem mæla fyrir um lögbundnar gjafsóknir:

  • Gjafsókn er veitt í málum þar sem settar eru fram kröfur um bætur fyrir handtöku, leit á manni eða í húsi, hald á munum, rannsókn á heilsu manns, gæsluvarðhald og aðrar aðgerðir sem hafa frelsissviptingu í för með sér.

  • Foreldrar, fósturforeldrar og barn sem gengur inn í mál á grundvelli barnaverndarlaga skulu hafa gjafsókn fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti.

  • Almennar gjafsóknarreglur gilda um málssókn og málsvörn fyrir Félagsdómi.

  • Stefnandi skal hafa gjafsókn í dómsmáli vegna ættleiðingar.

  • Heimilt er að veita málsaðila, sem ekki hefur krafist þess að álits verði aflað hjá EFTA-dómstólnum um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, gjafsókn vegna þess þáttar málsins.

  • Umboðsmaður Alþingis getur lagt til að gjafsókn verði veitt í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar.

  • Greiða skal úr ríkissjóði þóknun lögmanns stefnanda sem dómari ákveður, svo og annan málskostnað, þegar barn er stefnandi faðernismáls. Ákvæði sömu greinar barnalaga eiga við í dómsmálum til vefengingar á faðerni barns, þegar barn er stefnandi.

Hvernig er sótt um lögbundna gjafsókn?

Umsókn um gjafsókn skal senda dómsmálaráðuneytinu. Umsókn skal vera skrifleg og lögð fram nægjanlega tímanlega, eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalmeðferð máls. Heimilt er að vísa frá umsókn sem berst svo skömmu fyrir aðalmeðferð máls að tóm gefst ekki til gagnaöflunar og til að veita rökstudda umsögn.

Afgreiðslutími umsókna er almennt 1 mánuður.