Fara beint í efnið

Fasteignamat

Útreikningur á fasteignamati

Fasteignamat er verðmat á virði húss og lóðar. Forsendur fasteignamats eru meðal annars:

  • Flatarmál eignar.

  • Aldur og ástand eignar.

  • Staðsetning.

  • Tölfræðileg gögn um kaupsamninga á landinu.

Fasteignamat er endurmetið á hverju ári og fá eigendur tilkynningu í júní um áætlað fasteignamat fyrir næsta ár.

Dæmi:

Fasteignamat 2024 miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2023 og tekur gildi 31. desember 2023.

Þú getur séð upplýsingar um þínar eignir á Mínum síðum á island.is, meðal annars fasteignamat og brunabótamat. Einnig er hægt að sjá upplýsingar um allar fasteignir í fasteignaskrá.

Tilgangur fasteignamats

Fasteignamat er notað til útreikninga á fasteignagjöldum sem sveitarfélög ákvarða, erfðafjárskatti og stimpilgjaldi á þinglýsingu kaupsamninga. Einnig nota sumar lánastofnanir hlutfall af fasteignamati til að ákvarða lánsupphæð.

Ef eigendur telja að fasteignamat endurspegli ekki virði fasteignarinnar, til dæmis ef byggt hefur verið við húsið eða húsið er í slæmu ásigkomulagi, er hægt að sækja um endurmat á fasteignamati.

Endurmat á fasteignamati

Umsókn um endurmat á fasteignamati fyrir einstaklinga

Umsókn um endurmat á fasteignamati fyrir lögaðila

Með umsókninni þarf að fylgja:

  • fasteignanúmer og landeignanúmer

  • rökstuðningur fyrir breytingunni

  • myndir af öllum rýmum innanhúss

  • myndir af húsi að utan til að veita heildarmynd af ástandi fasteignarinnar

  • skriflegt umboð, ef annar en eigandi sækir um

Þegar þú hefur sent umsóknina færðu tölvupóst til staðfestingar. Ef upplýsingar vantar eða ef talin er þörf á að bóka skoðun er haft samband með tölvupósti eða síma. Ef þú ert með einhverjar spurningar geturðu sent á fasteignamat@hms.is.

Umsókn samþykkt

Þú færð tilkynningu um breytt fasteignamat með hnippi á island.is. Afgreiðslutími er að jafnaði 5 virkir dagar, en að hámarki 15 dagar.

Umsókn synjað

Ef ekki er talið að tilefni sé til endurmats á fasteignamati færðu tölvupóst með úrskurði um óbreytt fasteignamat. Þú getur beðið um nánari rökstuðning innan 14 daga frá þessari ákvörðun.

Ef þú ert ósammála úrskurðinum getur þú kært hann skriflega til Yfirfasteignamatsnefndar með rökstuðningi og nauðsynlegum gögnum. Kærufrestur er 3 mánuðir.