Fara beint í efnið

Bætur til þolenda afbrota

Umsókn um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota

Verðir þú fyrir afbroti gætir þú átt rétt á bótum frá ríkissjóð. Þetta á við um ofbeldiskennd brot eins og:

  • líkamsárás

  • kynferðisbrot

  • ólögmæta frelsissviptingu

  • brot sem veldur almannahættu

  • brot gegn valdstjórninni

  • rangar sakargiftir

  • ærumeiðingar og brot á friðhelgi einkalífsins

  • manndráp, en þá geta ættingjar átt rétt á bótum vegna missis framfærenda og greiðslu útfararkostnaðar

Ekki eru greiddar bætur vegna auðgunarbrota eða eignaspjalla. 

Önnur ofbeldisbrot geta komið til greina, í vafamálum má hafa samband við botanefnd@syslumenn.is.

Skilyrði fyrir greiðslu bóta 

Skilyrðin eru

  • að brotið hafi verið framið innan íslenska ríkisins 

  • að brotið hafi verið kært til lögreglu án ástæðulauss dráttar

  • að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi hins kærða

  • að umsókn um greiðslu hafi borist bótanefnd innan tveggja ára frá því brot var framið, en frá því geta verið undantekningar, einkum með tilliti til aldurs brotaþola þegar brotið var framið

Sækja þarf um greiðslu bóta í málum sem enda með sakfellingu í dómskerfinu og bætur dæmdar. Greiðslan kemur ekki sjálfkrafa.

Ekki er nauðsynlegt að

  • brotið hafi farið fyrir dóm eða endað með sakfellingu, þú getur átt rétt á bótum þó málið sé látið niður falla

  • gerandi sé kunnur, þú getur átt rétt á bótum þó gerandi sé ókunnur, látinn eða dvalarstaður hans óþekktur 

  • gerandi sé sakhæfur, þú getur átt rétt á bótum þó gerandi sé ósakhæfur sökum ungs aldurs eða af öðrum ástæðum

Hafir þú orðið fyrir tjóni vegna ofbeldis erlendis þarft þú að snúa þér til yfirvalda í því landi, en mörg ríki greiða bætur til þolenda afbrota. 

Það sem er bætt

Eftirfarandi er hægt að fá bætt:

  • sjúkrakostnað

  • þjáningu en þjáningarbætur eru yfirleitt aðeins greiddar á meðan tjónþoli er óvinnufær samkvæmt læknisvottorði

  • tekjutap

  • miska (samkvæmt 26. grein skaðabótalaga nr. 50/1993), þetta eru algengustu bæturnar í sakamálum

  • varanlegan miska (samkvæmt 4. grein skaðabótalaga)

  • varanlega örorku (samkvæmt 5-8. grein skaðabótalaga)

  • fatnað og persónulega muni sem tapast eða eyðileggjast vegna líkamsárásar

  • kostnað af starfi lögmanns við að halda frammi bótakröfu en almennt er þó gert ráð fyrir að tjónþoli geti sjálfur annast umsókn sína

Umsóknarferli og fylgigögn

Tímafrestur

Umsókn um greiðslu bóta þarf að berast bótanefnd innan tveggja ára frá því brot var framið.  

Ekki þarf að liggja fyrir dómur í máli og hægt er að sækja um bætur á hvaða stigi máls sem er, enda sé það gert innan tveggja ára.

Til að rjúfa tímafrestinn er mikilvægt að senda sem fyrst inn umsókn eða tilkynningu um að umsækjandi hafi orðið fyrir refsiverðum verknaði. Alltaf er hægt að senda ítarlegri gögn síðar. 

Fylgigögn

Umsókninni skal fylgja sundurliðuð og rökstudd bótakrafa, auk annarra gagna til stuðnings henni. 

Gögn sem geta skipt máli eru:

  • afrit af lögregluskýrslum eða öðrum rannsóknargögnum

  • bréf lögreglunnar um að málið hafi verið fellt niður eftir rannsókn ef sú staða er uppi

  • læknisfræðileg gögn eins og áverkavottorð

  • reikningar fyrir útlögðum kostnaði

  • vottorð vinnuveitanda vegna tapaðra launa

  • endurrit af dómi

Skrifstofa bótanefndar er hjá sýslumannsembættinu á Norðurlandi eystra á Siglufirði. Netfangið er botanefnd@syslumenn.is og síminn er 458-2600.

Ákvörðun bótanefndar

Þegar gögn hafa borist er málið tekið fyrir hjá bótanefnd sem samþykkir eða synjar umsóknum.  

Sé umsókn um greiðslu bóta samþykkt er fjárhæð ákveðin:

  • af bótanefnd í óupplýstum málum eða þegar ekki hefur verið fjallað um bótakröfu í dómsmáli af einhverjum ástæðum

  • í dómi þegar mál hefur endað með sakfellingu

Í bótamálum er ekki kærufrestur. Sé umsókn synjað þarf að höfða mál á hendur ríkinu til að fá því breytt.    

Svar bótanefndar er sent til brotaþola eða lögmanns hans. 

Greiðsla bóta

Bætur verða greiddar innan nokkurra daga eftir að ákvörðun bótanefndar liggur fyrir.

Fjársýsla ríkisins greiðir bæturnar.

Ef þú ert ekki með rafræn skilríki má nálgast umsókn á pdf formi hér

Lög og reglugerðir

Lög um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota

Umsókn um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15