Um undirskriftalista

Kynning á verkefni um undirskriftalista, haldin á UT-degi 2015.

Upplýsingasamfélagið fjármagnaði á árinu 2013 vettvang fyrir undirskriftasafnanir sem verður tilbúið á haustmánuðum 2014. Verkefnið er skilgreint í stefnu ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið 2013-2016. Markmiðið með verkefninu er að uppfylla ákvæði reglugerðar frá 29. janúar 2013 um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum  og reglugerðar frá 29. janúar 2013 um undirskriftasafnanir vegna óska um borgarafundi samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Auk þess er kerfið hannað til að geta haldið utan um annars konar undirskriftasafnanir, t.d. meðmælendalista vegna framboða eða annars konar lista til stuðnings ákveðnum málefnum. 

Kerfið gerir ráð fyrir að mögulegt verði að safna undirskriftum rafrænt undir merkjum Ísland.is. Notuð er innskráningarþjónusta Ísland.is og lögmæti undirskriftar kannað jafnóðum. Einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að safna undirskriftum á pappír, en þeim verði skilað á rafrænu formi (t.d. sem csv-skrá) ásamt frumgögnum og lesnir sjálfvirkt inn í kerfið.

Talvert hagræði felst í því að hafa vettvang fyrir rafrænar undirskriftasafnanir. Umtalsverð umsýsla felst í því að safna undirskriftum í formi pappírs og eru skiptar skoðanir á því hversu áreiðanlegar slíkar undirskriftasafnanir eru. Í því samhengi má hugsa sér eftirfarandi dæmi: Ef íbúar sveitarfélags knýja á um íbúakosningu um málefni má gera ráð fyrir því að nokkur þúsund undirskriftir sé um að ræða í sveitarfélagi af meðalstærð (stærstu sveitarfélögin yrðu umtalsvert stærri). Tryggja þarf starfskrafta til að sannreyna slíkar undirskriftir svo að réttlætanlegt þyki að taka þær trúanlegar. Þar með þarf að bera saman handvirkt nokkur þúsund kennitölur og tryggja m.a. að þær séu ekki tvíteknar, að einstaklingar sem þar koma fram séu yfir höfuð til og að einstaklingar hafi rétt á að skrifa undir (t.d. þeir sem eiga kosningarétt, eiga heima í ákveðnu sveitarfélagi o.s.frv.). Með því að beita rafrænni auðkenningu inn á undirskriftalistana er sönnunarhluti og áreiðanleiki undirskriftanna tryggður frá upphafi út frá fyrirliggjandi gögnum í skráningu þjóðskrár, ekki eftir á eins og tíðkast hefur.

Lýsing á ferli fyrir undirskriftasafnanir (pdf)

Reglugerðir

Reglugerð um undirskriftasafnanir vegna óska um borgarafundi samkvæmt sveitarstjórnarlögum
Reglugerð um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum