Stofna undirskriftalista

Markmiðið með undirskriftalistum á Ísland.is er veita rafrænan vettvang til að fólk geti lagt málefni lið með öruggum hætti. Þetta er liður í því að efla íbúalýðræði í landinu.

Stofna undirskriftalista

Áður en þú stofnar listann þarftu að undirbúa eftirfarandi atriði:

 • Ábyrgðarmaður: Tilgreina þarf ábyrgðarmann sem sér um að skrá atriðin hér fyrir neðan. Hann þarf að nota styrktan Íslykil (Íslykill + kóði sem sendur er sem sms í farsíma) eða rafræn skilríki til að geta skráð sig inn. Nafn ábyrgðarmanns fylgir listanum. Ábyrgðarmaður þarf einnig að staðfesta það netfang sem hann gefur upp.
 • Heiti undirskriftalista: Hafðu heitið eins stutt og þú getur, ekki mikið meira en 3-5 orð. Mikilvægt er að vanda til verka þannig að málefnið geti ekki misskilist eða sé ekki óljóst á neinn hátt. Dæmi: "Við viljum gott veður í sumar!"
 • Slagorð: Slagorð þarf að vera án íslenskra sérstafa. Þetta er orð sem kerfið setur sjálfkrafa í vefslóð.  Hægt er að nota slóðina t.d. í tölvupósti, á samfélagsmiðla eða á vefsíður. Dæmi: Slagorð er "GottVedur". Þá verður til slóðin http://listar.island.is/Stydjum/GottVedur.
 • Tilgangur undirskriftalista: Hér má skrifa nokkrar málsgreinar sem lýsa því hvers vegna listinn er settur upp og hvaða markmiðum honum er ætlað að ná. Þessi texti fylgir með listanum og er hugsaður sem nánari lýsing á málefninu fyrir þá sem kunna að vilja ljá því stuðning sinn. Vinsamlegast hafið í huga neðangreind viðmið við gerð listans.
 • Rökstuðningur: Hér má skrá sérstök skilaboð til Þjóðskrár Íslands sem fer yfir listann. Þessi skilaboð birtast ekki með listanum.
 • Tímabil undirskriftalista til/frá: Hér þarf að skrá hve lengi listinn á að vera opinn. Ekki er hægt að breyta þessari dagsetningu eftir á.
 • Undirskriftalisti er líka á pappír. Hakið við hér ef listinn verður líka á pappír. Þegar undirskriftasöfnun lýkur þarf ábyrgðarmaður listans að skila inn excelskjali (csv-skjali) með kennitölum og nöfnum þeirra sem skráðu sig handvirkt.
  Skjalið verður lesið inn í undirskriftakerfið og borið saman við það þýði sem ábyrgðarmaður hefur valið. Frá og með 1. janúar 2016 verður innheimt gjald fyrir þessa vinnu samkvæmt gjaldskrá Þjóðskrár Íslands.
 • Mynd: Listanum má fylgja mynd sem styður við markmið hans. Ef ekki er valin mynd þá kemur sjálfgefin mynd með.
 • Þýði: Ef um er að ræða lista samkvæmt reglugerð um almennar atkvæðagreiðslur eða borgarafundi samkvæmt sveitarstjórnarlögum þá þarf Þjóðskrá Íslands að gera kjörskrá. Annars getur ábyrgðarmaður valið þýði úr þjóðskrá og tiltekið aldursbil. Ef ekkert aldursbil er valið þá geta allir sem eru í þjóðskrá skráð sig.

Vinsamlegast hafðu í huga eftirfarandi viðmið við gerð listans:

 • Listinn snýst um málefni sem eru samfélaginu hugleikin á hverjum tíma
 • Listinn er í samræmi við viðurkennd gildi eða siðferðisvitund í samfélaginu
 • Listinn er í samræmi við lög og reglur landsins
 • Listinn er eigi til þess fallinn að skaða tiltekinn einstakling, einstaklinga eða hópa
 • Listinn er í samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins