Pósthólf

  • Pósthólf á mínum síðum. Einstaklingar og lögaðilar hafa aðgang að pósthólfi með skjölum frá opinberum aðilum, stofnunum og sveitarfélögum. Engin skjöl eru vistuð í pósthólfi, heldur eru þau sótt til viðkomandi stofnunar þegar innskráður einstaklingur óskar eftir þeim.
  • Hnipp er þjónusta sem skjalaveitum stendur til boða til að láta notendur vita með tölvupósti að nýtt skjal bíði þeirra í pósthólfi á Ísland.is.  Hægt er að taka afstöðu til hnipps í stillingum efst í hægra horni á mínum síðum/pósthólfi.
  • Þegar einstaklingur skráir sig inn á „mínar síður“ og opnar pósthólfið sitt er kannað hvort hann eigi skjöl hjá þeim skjalaveitum sem eru í samstarfi við Ísland.is og útbúinn listi. Ef einstaklingurinn velur að opna skjal er það sótt í skjalaveituna.
  • Milljónir skjala eru nú aðgengileg í pósthólfi Ísland.is. Um er að ræða skjöl frá Þjóðskrá Íslands, Fjársýslunni, Tryggingastofnun og sveitarfélögum landsins.
  • Opinberir aðilar geta birt skjöl í pósthólfi á Ísland.is sem annars hefði þurft að senda í bréfpósti. Þar með geta stofnanir og sveitarfélög valið um það hvort þau senda út bréf á pappírsformi eða birta þau rafrænt í öruggu umhverfi á „mínum síðum“ á Ísland.is. Með því að nýta pósthólfið sparast bæði vinna og kostnaður við pappírssendingar.
  • Engin skjöl eru vistuð í pósthólfi Ísland.is. Stærri aðilar koma sér upp eigin skjalaveitum en minni aðilar geta nýtt sér dulkóðaða skjalaveitu hjá Þjóðskrá Íslands. Þar er einnig hægt að hlaða inn stökum skjölum. Samskipti við skjalaveitur fara fram með vefþjónustum.
  • Þjónustan er gjaldfrjáls að því leyti að hvorki Þjóðskrá Íslands né verkefnið Ísland.is krefjast greiðslu fyrir vinnu starfsmanna við að tengja aðila inn í skjalabirtingarkerfi Ísland.is né vegna reksturs þjónustunnar. Hins vegar gæti fallið til kostnaður hjá opinberum aðilum við að ganga frá skjölum og skrifa þær vefþjónustur sem þurfa að vera fyrir hendi þeirra megin. Afnot af viðmóti til að hlaða inn stökum skjölum er öllum að kostnaðarlausu.
  • Skjöl í pósthólfi Ísland.is eru birt á PDF-formi. Fyrstu skjölin sem birt voru með þessum hætti voru tilkynningaseðlar frá Þjóðskrá íslands um nýtt fasteignamat fyrir árið 2012. Um var að ræða fjöldaútsendingu á tilkynningu sem ella hefði farið út í bréfpósti. Um það bil 130 þúsund bréf voru gerð rafræn og hafði það í för með sér um 9 milljóna króna sparnað í póstburðargjöldum, efniskostnaði og pökkun. Þá er ekki meðtalin vinna við frágang og stjórnun á slíkri fjöldapóstsendingu. Þannig var um verulegan ávinning að ræða og má gera ráð fyrir miklum fjárhagslegum ávinningi fyrir stofnanir og sveitarfélög sem nýta sér þessa þjónustu og takmarka bréfpóst.