Um Ísland.is

Hvað er Ísland.is?

 • Ísland.is er upplýsinga- og þjónustuveita opinberra aðila á Íslandi. Meginmarkmiðið er að fólk og fyrirtæki geti fengið upplýsingar og notið margvíslegrar þjónustu hjá opinberum aðilum á einum stað í gegnum eina gátt.
 • Ísland.is er eitt meginverkefnið í stefnunni "Vöxtur í krafti netsins", stefnu ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið 2013-2016. Þar segir: „Ríki og sveitarfélög þrói saman "mínar síður" á Ísland.is (ein gátt). Í lok 2016 geti einstaklingar og fyrirtæki afgreitt erindi sín við stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, hvenær sem er, hvar sem er og án tafar. Einnig geti einstaklingar og fyrirtæki fengið upplýsingar um sín mál og fylgst með stöðu þeirra. Opnaður verður aðgangur að persónubundnum upplýsingum í skrám opinberra aðila á þann hátt að einstaklingar hafi aðgang að sínum upplýsingum“.

Þjónusta á Ísland.is

 • Á „mínum síðum“ á Ísland.is geta einstaklingar séð upplýsingar um sig og börn sín í þjóðskrá, fasteignaskrá, ökutækjaskrá, bólusetningaskrá og Innu, námsferilsskrá framhaldsskólanna. Engin gögn eru vistuð á Ísland.is, aðeins er um gagnaflutning að ræða í gegnum dulkóðaða rás beint frá skráarhaldara til innskráðs notanda.
 • Opinberir aðilar geta birt skjöl í pósthólfi á Ísland.is sem annars hefði þurft að senda í bréfpósti. Þar með geta stofnanir og sveitarfélög valið um það hvort þau senda út bréf á pappírsformi eða birta þau rafrænt í öruggu umhverfi á „mínum síðum“ á Ísland.is. Með því að nýta pósthólfið sparast bæði vinna og kostnaður við pappírssendingar.
 • Upplýsinga- og þjónustuveita stjórnvalda. Hér er að finna upplýsingar um opinbera þjónustu sem sett er þannig fram að notendur þurfi ekki að vita fyrirfram hver veitir þjónustuna.
 • Kerfi fyrir undirskriftalista á Ísland.is er sérstaklega ætlað að þjónusta íbúa sveitarfélaga landsins sem vilja knýja á um íbúakosningar um tiltekið málefni. Á Ísland.is er vettvangur til að safna undirskriftum rafrænt um þau málefni sem eru fólki hugleikin. Notuð er innskráningarþjónusta Ísland.is og lögmæti undirskriftar kannað jafnóðum. Einnig er hægt að safna undirskriftum á pappír og skila inn í kerfið á rafrænu formi.
 • Vefur þjónustutilskipunar Evrópusambandsins, er Eugo.is. Markmið hans er að uppfylla skilyrði laga nr. 76/2011 um þjónustuviðskipti á innri markaði evrópska efnahagssvæðisins. Þar segir að þjónustuveitendur eigi að geta sótt rafrænt um leyfi til að stunda starfsemi sína á Íslandi og haft aðgang að upplýsingum á einum stað.
 • Leyfisveitingagátt á Ísland.is er þjónusta fyrir þá sem ætla að sækja um leyfi til atvinnurekstrar og þá sem koma að því að veita leyfið. Auðkenndur einstaklingur eða lögaðili sækir um leyfi til atvinnurekstrar í öruggu umhverfi og lætur gáttina sækja fyrir sig flest nauðsynleg fylgigögn. Umsækjandi fylgist síðan með ferli umsókna sinna á einum stað. Umsagnaraðilar og leyfisveitendur hafa einnig aðgang að gáttinni varðandi þeirra þátt.
 • Vefsvæðinu http://opingogn.is eða http://gogn.island.is er ætlað að þjóna öllum þeim opinberu aðilum sem vilja birta gögn um starfsemi sína og hafa þau öllum opin. Með opnum gögnum er ekki aðeins átt við að almenningi sé veittur aðgangur að gögnunum heldur að hver sem er geti notað, umbreytt og deilt gögnunum með hvaða hætti sem er.
 • Mannanöfn á Ísland. is. Hér eru skráð öll nöfn sem heimiluð eru á Íslandi samkvæmt ákvörðun mannanafnanefndar.
 • Innskráningarþjónusta Ísland.is heyrir undir Ísland.is. Þar er hægt að nota Íslykil annars vegar og rafræn skilríki í síma og á snjallkorti hins vegar. Íslykill er gefinn út af Þjóðskrá Íslands. Markmið innskráningarinnar er að bjóða upp á eina samræmda leið til innskráningar inn á einstaklingsmiðaða þjónustuvefi.
 • Rafrænt íbúakosningakerfi Ísland.is er þjónusta við sveitarfélög landsins. Kerfinu var komið á laggirnar til að mæta 10. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þar sem fjallað er um samráð sveitarstjórna við íbúa. Er þar meðal annars kveðið á um að sveitarstjórn geti ákveðið að halda sérstakar íbúakosningar um einstök málefni sveitarfélagsins. Samkvæmt sérstöku bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlögin getur sveitarstjórn óskað eftir því við ráðherra að íbúakosning fari eingöngu fram með rafrænum hætti og er tilgangur ákvæðisins að styðja við framkvæmd rafræns lýðræðis í sveitarfélögum.
 • Kerfi fyrir meðmælendalista á Ísland.is þjónar þeim sem bjóða sig fram í kosningum og þurfa að safna meðmælendum. Þar geta framboð skráð meðmælendur sína rafrænt á Ísland.is og fengið jafnóðum upplýsingar um fjölda gildra meðmæla miðað við skráningu á pappírslista, en ekki eftir á eins og tíðkast hefur. Kerfið var fyrst notað í forsetakosningunum 2016 og aftur í alþingiskosningunum 2016.
 • Samráðsgátt á Ísland.is . Markmið gáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Þar er að finna áform um lagasetningu, drög að lagafrumvörpum og reglugerðum, skjöl um stefnumótun (t.d. drög að stefnum) og fleira. Öllum er frjálst að senda inn umsögn eða ábendingu. Jafnframt er mögulegt að gerast áskrifandi að sjálfvirkri vöktun upplýsinga, hvort heldur er eftir málefnasviði, stofnun eða tilteknu máli. Að samráðstímabili loknu er gerð grein fyrir úrvinnslu athugasemda og niðurstöðu máls. Til viðbótar við opið samráð á netinu geta verið annars konar samráðsferlar, svo sem þátttaka helstu hagsmunaaðila í nefndarstarfi eða sérstakt boð til þeirra um umsögn.
 • Evrópsk samstarfsverkefni. Þjóðskrá Íslands er virkur þátttakandi í evrópskum samstarfsverkefnum og þar spilar Ísland.is stórt hlutverk.

Umsjón verkefnis

Hafðu samband

 • Hægt er að hafa samband við Ísland.is á netfanginu
  island@island.is
 • Allar ábendingar varðandi efni eru vel þegnar.