Ferðagjöfin felur í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins. Samkvæmt tímabundnum reglum um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi COVID-19 heimsfaraldurs, frá 19. mars 2020, er fyrirtæki heimilt að taka við samanlagt allt að 100 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa. Fyrirtæki sem var í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019 í skilningi hópundanþágureglugerðar (ESB) nr. 651/2014 getur að hámarki tekið við samanlagt 25 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa.
Fyrirtæki telst hafa verið í fjárhagserfiðleikum á þeim tímapunkti ef a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt, samanber skilyrði í tímabundnum reglum um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi heimsfaraldurs, frá 19. mars 2020:
Um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi.
Um er að ræða félag þar sem a.m.k. einn aðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi.
Um er að ræða fyrirtæki sem sætir gjaldþrotameðferð eða uppfyllir skilyrði um að vera tekið til gjaldþrotameðferðar að beiðni kröfuhafa.
Um er að ræða fyrirtæki sem hefur fengið björgunaraðstoð í skilningi leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um björgun og endurskipulagningu fyrirtækja, og hefur enn ekki endurgreitt lánið eða aflétt ábyrgðinni eða hefur fengið aðstoð til endurskipulagningar og er því enn bundið af samþykktri áætlun um endurskipulagningu.
Eftirtalin skilyrði hafa átt við síðustu tvö reikningsár: a) hlutfall milli bókfærðra skulda fyrirtækisins og eigin fjár hefur verið hærra en 7,5 og b) hagnaður fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) nemur lægri fjárhæð en nettófjármagnskostnaður ársins.
Skilyrði (1) og (2) eiga ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt, hafi starfsemi þess staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
Skilyrði (5) á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt.
Um skilgreiningu á litlum og meðalstórum fyrirtækjum fer eftir lögum um ársreikninga nr. 3/2006.