Seyðisfjörður, upplýsingar vegna hamfaranna í desember 2020
Um miðjan desember sl. riðu fordæmalausar hamfarir yfir Seyðisfjörð í kjölfar úrhellingsrigningar á svæðinu í hartnær eina viku. Aurskriður féllu á hús með þeim afleiðingum að skemmdir urðu á þeim og eru einhver þeirra gjörónýt. Þó nokkuð tjón varð á fjölda húsa þegar vatn flæddi inn í kjallara þeirra og ljóst er að mikið munatjón hefur orðið í hamförunum. Fyrstu viðbrögð við hamförunum fólust í að tryggja öryggi á svæðinu á grundvelli almannavarna.
Umfangsmikið starf er fram undan við að tryggja öryggi á Seyðisfirði til frambúðar. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að nauðsynlegt sé að hraða eins og kostur er uppbyggingu samfélags, innviða og menningarminja á Seyðisfirði.
Um hamfarirnar
Aurskriðurnar sem féllu á Seyðisfirði eru þær mestu sem fallið hafa á þéttbýli á Íslandi.
Veðurstofa Íslands fylgist grannt með aðstæðum til að meta hættuna á frekari skriðuföllum. Eftir að skriður falla getur hrunið áfram úr skriðusárinu í langan tíma en í flestum tilfellum eru þær skriður miklu minni. Hlíðin kann því að verða óstöðug eitthvað áfram og hrunið gæti úr
skriðusárum í rigningartíð. Nýr búnaður til að vakta skriðuhættu var settur upp á Seyðisfirði í upphafi ársins.
Nánari umfjöllun um hamfarirnar á vef Veðurstofunnar. Annar vegar Stóra skriðan á Seyðisfirði sú stærsta sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi og Nýr búnaður til að vakta skriðuhættu settur upp á Seyðisfirði.
Þessi síða er á vegum starfshóps ráðuneyta sem skipaður var í kjölfar hamfaranna á Seyðisfirði í desember. Markmiðið er að taka saman upplýsingar fyrir íbúa á svæðinu um verkefni í framkvæmd og fyrirhuguð verkefni ríkisaðila á Seyðisfirði vegna hamfaranna. Svör við spurningum á þessum vef munu því uppfærast í samræmi við nýjustu upplýsingar hverju sinni en jafnframt munu fleiri spurningar og svör bætast við eftir því sem þurfa þykir hverju sinni.
Hægt er að hafa beint samband við starfshópinn í gegnum tölvupóst.
Gagnlegir hlekkir
Algengar spurningar vegna hamfaranna á Seyðisfirði desember 2020
Starfshópurinn er tengiliður stjórnvalda við sveitarfélagið, opinberar stofnanir og annarra hagsmunaaðila á svæðinu er snýr að samskiptum og eftirfylgni mála í framangreindum áföngum. Með því verður leitast við að tryggja milliliðalaust samtal stjórnvalda við heimamenn, flýta fyrir ákvörðunartöku og koma málum í réttan farveg. Slíkt felur m.a. í sér að meta kostnað sem rekja má beint til hamfaranna og gera tillögur til ríkisstjórnar um viðbótarfjárveitingar til stofnana ríkisins sem er falið að bregðast við afleiðingum hamfaranna og tillögur um styrk til sveitarfélagsins. Ríkisstjórnin veitti einnig fimm milljóna kr. styrk til Björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði í upphafi árs 2021.
· Uppfært í febrúar 2021
Ekki hefur orðið vart við skriðuföll úr hlíðinni ofan Seyðisfjarðar síðan fyrir jól. Óveruleg hreyfing hefur mælst á jarðlögum frá 23. desember í daglegum mælingum. Vatnsþrýstingur í hlíðinni hefur lækkað niður undir fyrra horf og breytist ekki mikið þó nokkuð hafi rignt eða snjóa leyst. Hlíðin hefur fengið á sig nokkra hlýindakafla frá því að stóra skriðan féll þann 18. desember og nokkra rigningu þann 27. desember án þess að skriður tækju að falla. Talið er að jarðlög sem los kom á í skriðuhrinunni hafi að mestu sest í sínar fyrri skorður og að nýtt úrkomutímabil þurfi til þess að skapa hættu á skriðuföllum. Enn er þó talin hætta á að hrunið geti úr skriðusárum en ekki að slík skriðuföll nái byggðinni utan svæðisins þar sem stóra skriðan féll.
Aukinn viðbúnaður verður innan ofanflóðavaktar Veðurstofunnar vegna Seyðisfjarðar og hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir varðandi vöktun.
Búið er að skipta ofanflóðavaktinni í tvo hópa tímabundið
6 manns koma nú að vöktuninni á Seyðisfirði
Aðrir halda áfram hefðbundinni snjóflóðavakt
Alltaf eru 1-2 hverju sinni að fylgjast með mælingum, veðurspám og stöðunni
Aðrir vinna að mælingum, athugunum, upplýsingagjöf, uppsetningu mælitækja o.s.frv.
Til þess að bæta vöktun á Seyðisfirði er talið mikilvægt að vakta hreyfingu hlíðarinnar og vatnsbúskap með síritandi mælitækjum. Mikilvægt að vakta einnig þelaurðina sem er ofarlega í Strandartindi ofan Þófans.
Til að byrja með verður mælst til rýminga við minna tilefni en áður – sem er varúðarráðstöfun. Einnig er líklegt að rýmingar verði tíðari á meðan verið er að læra á gögn úr nýjum mælitækjum. Þröskuldurinn gagnvart rýmingum mun smám saman hækka
Haldnir hafa verið reglulegir íbúafundir þar sem upplýst er um stöðu mála, bæði hvað varðar þróun mála í hlíðum ofan bæjarins sem og uppsetningu á nýjum búnaði. Fréttir eru uppfærðar eftir þörfum á www.vedur.is, svör við spurningum sem berast frá íbúum til Múlaþings er svarað og þau svör birt á vef Múlaþings. Sérfræðingar Veðurstofunnar voru á Seyðisfirði í janúar og sinntu viðtölum við íbúa, en einnig voru sérfræðingar til tals í upplýsingamiðstöðunni og verða þar eftir þörfum. Haldnir hafa verið margir stöðufundir með Almannavörnum, lögreglu og sveitarstjórn sem býr til fréttatilkynningar til íbúa og verður því fyrirkomulagi haldið áfram eftir þörfum.
Skriðan sem féll milli Búðarár og Stöðvarlækjar á Seyðisfirði síðdegis þann 18. desember sl. átti upptök sín í um 170 m hæð yfir sjávarmáli, í svokallaðri Botnabrún sem er stallur í neðanverðri fjallshlíðinni sunnan og austan byggðarinnar við botn fjarðarins. Hún er stærsta skriða sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi og olli gríðarlegu tjóni.
Stóra skriðan var um 190 m breið þar sem ytri armur hennar féll niður í gegnum byggðina og út í sjó. Innri armur hennar var um 130 m breiður þar sem hann staðnæmdist nærri Hafnargötu. Heildarbreidd skriðutungunnar í byggðinni var því um 320 m. Hún var um 435 m löng frá efsta brotsári út í ysta hluta tungunnar. Þar sem skriðan féll út í sjó hefði hún væntanlega náð nokkru lengra ef hún hefði fallið út á jafnsléttu á landi. Ytri hluti skriðunnar var mjög hraðfara en innri hlutinn virðist hafa ferðast hægar og klofnaði í tvo arma á hrygg eða hól í landslaginu í brekkufætinum.
Hættumat felur í sér að lagt er mat á ofanflóðahættu þegar til langs tíma er litið og skilyrði sett fyrir skipulag byggðar og nýtingu húsnæðis á ofanflóðahættusvæðum. Hættumatið er einnig grundvöllur fyrir viðbúnaði við yfirvofandi hættu á snjóflóðum eða skriðuföllum vegna þess að það ákvarðar svæðið sem hættan kann að ná til þegar hún kemur upp. Hættumatið sem slíkt eða hættumatskort sem sýna mismunandi hættusvæði er því ekki rýmingarkort í þeim skilningi að rýma skuli öll hús innan tiltekins svæðis á hættumatskorti þegar ákveðnar aðstæður hafa skapast. Viðbúnaður við yfirvofandi ofanflóðahættu byggir einnig á veðurspá og athugunum á vettvangi og er skipulagður á grundvelli rýmingaráætlana Veðurstofunnar, lögreglu og almannavarnayfirvalda.
Ef aurskriður hafa þegar fallið á byggð skipta bráðaviðbrögð mestu og þau eru undir stjórn lögreglu og almannavarna. Réttast er að fara eftir tilmælum lögreglu ef þessi staða kemur upp. Í aðdraganda skriðufalla gefur Veðurstofan út tilmæli um öryggisráðstafanir og lögregla tekur ákvarðanir um öryggisráðstafanir og rýmingu húsnæðis. Þá skiptir miklu að hlíta fyrirmælum yfirvalda, rýma húsnæði og fara eftir tilmælum sem gefin eru. Erlendar rannsóknir benda til þess að fólk sé öruggara á efri hæðum húsa. Mikilvægt er að forðast að standa við glugga eða hurðir sem snúa upp í brekku.
Sjá nánar á vefsíðu almannavarna.
Ekki er gert ráð fyrir að einstakir íbúar grípi til ráðstafana að eigin frumkvæði til þess að draga úr hættu, en rýming húsnæðis er hugsanleg ef talin er hætta á skriðuföllum. Íbúar geta þó byrgt glugga og hurðir sem snúa upp í hlíðina til að draga úr eignatjóni. Einnig er rétt að huga að frárennsli frá húsum í einhverjum tilfellum.
Í ofanflóðahættumati sem Veðurstofan vann fyrir Seyðisfjarðarkaupstað og kynnti í ágúst 2019 kemur fram að skriðuhætta í þéttbýlinu við sunnanverðan fjörðinn á upptök í mismunandi hæð í hlíðinni eftir svæðum. Þekktasta skriðuhættusvæðið er undir Strandartindi þar sem oft hefur orðið tjón í byggð. Skriður á þessu svæði eiga oftast upptök í þykkum setlögum, sem eru að hluta þelaurð, ofarlega í Strandartindi. Skriður geta jafnframt fallið úr neðri hluta hlíðarinnar, þar sem einnig er að finna þykk setlög sem geta orðið óstöðug í vætutíð. Skriðurnar falla helst niður ákveðin gil og farvegi í hlíðinni, þar sem hætta er talin mest, en hættan nær einnig til svæða á milli giljanna. Innar í byggðinni hafa jarðfræðirannsóknir síðan árið 2003 sýnt að stórar, forsögulegar skriður hafa fallið úr svokallaðri Botnabrún yfir svæðið þar sem suðurhluti Seyðisfjarðarbæjar stendur nú. Í ofanflóðahættumatinu eru afmörkuð stór hættusvæði vegna hættu á skriðuföllum úr þremur meginfarvegum þar sem talið er að forsögulegu skriðurnar hafi fallið. Þetta eru Búðará, Nautaklauf og Klauf, sem er lægð skammt utan við Dagmálalæk. Hætta er einnig talin á skriðuföllum úr Botnabrún á milli þessara farvega, en hún er þó talin minni en úr meginfarvegunum.
Aukinn viðbúnaður verður innan ofanflóðavaktar Veðurstofunnar vegna Seyðisfjarðar, en á veturna ganga 8 sérfræðingar reglulegar snjóflóðavaktir.
Nú eru fjórir þeirra í þjálfun.
Tveir eru á vakt í hverri viku og alltaf einn vanur.
Einn er á bakvakt í einu.
Ef talið er að ofanflóðaveður sé í uppsiglingu er sett á aukin vöktun og tveir vanir vaktmenn eru með sólarhringsbakvakt.
Ef um mögulegt skriðuveður er að ræða að vetri, er skriðusérfræðingur kallaður inn á vakt.
Þegar lýst hefur verið yfir óvissustigi eða hættustigi vegna yfirvofandi ofanflóðahættu:
4-6 sérfræðingar rúlla vöktum á milli sín allan sólarhringinn.
9. maðurinn er kallaður inn sem er byggða- og varnarsérfræðingur.
Veðurstofan hefur yfir að ráð hópi sem sinni eftirliti með snjóalögum, en sem einnig sinna verkefnum í kringum skriðuvakt og starfa á þeim þéttbýlisstöðum þar sem helst getur skapast hætta.
Þegar hefur verið gripið til þeirra sérstöku ráðstafana vegna Seyðisfjarðar að skipta ofanflóðavaktinni tímabundið í tvo hópa. 6 manns koma nú að vöktuninni á Seyðisfirði, en aðrir halda áfram hefðbundinni snjóflóðavakt. Alltaf eru 1-2 hverju sinni að fylgjast með mælingum, veðurspám og stöðunni, en aðrir vinna að mælingum, athugunum, upplýsingagjöf, uppsetningu mælitækja.
Til þess að bæta vöktun á Seyðisfirði er talið mikilvægt að vakta hreyfingu hlíðarinnar og vatnsbúskap með síritandi mælitækjum. Mikilvægt að vakta einnig þelaurðina sem er ofarlega í Strandartindi ofan Þófans.
Til að byrja með verður mælst til rýminga við minna tilefni en áður – sem er varúðarráðstöfun. Einnig líklegt að rýmingar verði tíðari á meðan verið er að læra á gögn úr nýjum mælitækjum. Þröskuldurinn gagnvart rýmingum mun smám saman hækka.
Búið er að festa kaup á og setja upp sjálfvirka alstöð:
Mælir spegla = punktmælingar.
Skyggni getur hindrað mælingar.
Bæta á við enn fleiri speglum – einnig í þelaurðina.
Sett inn þröskuldsgildi og sjálfvirkar aðvaranir.
Sjálfvirkur úrkomumælir í Neðri-Botnum:
Þriðji úrkomumælirinn á Seyðisfirði.
Síritandi grunnvatnsmælar:
Búið er að panta 5 grunnvatnsmæla til viðbótar til þess að setja í grunnvatnsholur sem þegar eru til staðar.
Áformaður vöktunarbúnaður á Seyðisfirði:
Net af sjálfvirkum GPS stöðvum er í undirbúningi.
Verða mögulega 8-9 stöðvar samtals, sem eru óháðar skyggni.
Togmælar:
Mæla tog mjög nákvæmlega og gefa til kynna ef sprungur eru að gliðna.
Oftast settir í sprungur í bergi.
Kannað hvort gagnlegt sé að reka niður staura beggja vegna sprungu og setja togmæla í.
InSAR radar.
Verið að skoða möguleikann á því að taka InSAR radar á leigu.
Óháður skyggni að mestu.
Mælir alla hlíðina og breytingar á henni með talsverði nákvæmni.
Borholur:
Verið er að kanna möguleikann á að gera djúpar borholur og setja í þær síritandi aflögunarmæla.
Skoða dýpi hreyfinga.
Sjá hreyfingu í rauntíma.
Unnið er að frumathugum á ofanflóðavörnum fyrir suðurhluta Seyðisfjarðar. Meðal annars er kannað hvort unnt sé að ræsa fram vatn úr jarðlögum þar sem skriður geta átt upptök og reisa varnargarða neðan hlíðarinnar. Niðurstöður frumathugunar munu liggja fyrir í vor eða snemmsumars.
Þjónustumiðstöð hefur verið opnuð á Seyðisfirði og er til húsa í Herðubreið, menningar- og félagsheimili. Þjónustumiðstöðin er opin virka daga frá 10-18 og um helgar eftir þörfum.
Helstu verkefni þjónustumiðstöðvar á Seyðisfirði eru:
Staðbundin upplýsingagjöf til íbúa (um neyðaraðstoð, bætur vegna tjóna, hreinsunarstörf, aðgang að húsnæði á skaðasvæði o.fl.)
Sálrænn stuðningur.
Spjall og samvera með íbúum. Alltaf er heitt á könnunni og meðlæti með því
Mat og skipulag fræðslu til íbúa út frá þörf þeirra hverju sinni. Þessar upplýsingar er fengnar með samtölum við íbúa og staðbundið starfsfólk.
Samstarf og aðstoð við sveitarfélagið (félagsþjónusta) um stuðning við íbúa
Samstarf og aðstoð við sveitarfélagið um upplýsingagjöf til íbúa
Stuðningur við störf Náttúruhamfaratryggingar Íslands
Samstarf við samráðshóp áfallahjálpar á Austurlandi
Samhæfing aðgerða og stuðningur við sveitarfélagið og lögreglu vegna hreinsunarstarfa og verðmætabjörgunar
Staðan 19. febrúar 2021 er eftirfarandi: Af 96 tjónum sem tilkynnt hafa verið er niðurstaða komin í 51 máli, beðið er gagna frá tjónþola í 12 málum, 2 mál eru í úrvinnslu hjá matsmanni, 8 mál í úrvinnslu hjá NTÍ, tjónþolar hafa niðurstöðu tjónamats til umsagnar í 12 málum og unnið er að uppgjörum á 11 málum sem búið er að kynna fyrir eigendum.
Öll hús og mannvirki á Íslandi sem eru 100 ára eða eldri eru sjálfkrafa friðuð. Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Einnig eru hérlendis 534 hús og mannvirki sem teljast friðlýst. Ráðherra ákveður friðlýsingu húsa og mannvirkja eða hluta þeirra, sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands. Loks ber að hafa í huga að framkvæmdir við hús og mannvirki sem byggð voru 1925 eða fyrr og kirkjur sem reistar voru 1940 eru umsagnarskyldar.
Hafa skal samband við starfsfólk Minjastofnunar Íslands.
Vegna mála sem snerta hamfarirnar á Seyðisfirði ber að hafa samband við Pétur H. Ármannsson,sviðsstjóra umhverfis og skipulags hjá Minjastofnun petur@minjastofnun.is. Þuríður Harðardóttir er minjavörður Austurlands, thuridur@minjastofnun.is.
Hlutverk minjavarða er að hafa almenna umsjón með menningarminjum og fornleifavörslu, skráningu og eftirliti forngripa og gamalla bygginga á hverju minjasvæði fyrir sig.
Minjastofnun Íslands úthlutar styrkjum úr húsafriðunarsjóði að fenginni umsögn húsafriðunarnefndar. Styrkir úr sjóðnum eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur. Að jafnaði renna styrkir úr húsafriðunarsjóði einungis til endurbóta og viðhalds sem stuðla að upprunalegu útliti húss eða mannvirkis og er dýrara en hefðbundið viðhald fasteignar þar sem notuð eru efni og aðferðir sem samrýmast varðveislugildi hússins. Að jafnaði er úthlutað úr sjóðunum einu sinni á ári og er umsóknarfrestur í húsafriðunarsjóð að venju til 1. desember. Styrkir til einstaklinga úr húsafriðunarsjóði mynda ekki stofn til tekjuskatts.
Umsjónarmaður með framkvæmd hreinsunarinnar á vegum sveitarfélagsins hafði samráð við Vegagerðina um vegmerkingar í byrjun hreinsunar. Þann 5. janúar var farið yfir framkvæmd efnisflutninga á staðnum vegna opnunar vegar í gegnum bæinn með umsjónarmanni hreinsunarinnar. Nokkrar skemmdir höfðu orðið á Vestdalseyrarvegi vegna efnisflutninganna. Ákveðið að breyta verklagi til að minnka álag á vegi.
Í framhaldinu hefur verið haft samráð við umsjónarmann hreinsunarinnar og fulltrúa Múlaþings um vegmerkingar og umræða er uppi um að draga úr álagi á vegina.
Ljóst er að allar viðgerðir á vegum með bundnu slitlagi eða malarslitlagi eru erfiðar á vetrartíma og jafnvel ógerlegar svo vel sé. Reynt verður að tryggja að sem minnstar skemmdir verði á vegum með minni lestun á bílum, lægri umferðarhraða og með því að hafa a.m.k. 100 m bil á milli bíla, auk þess að setja útskot á Vestdalseyrar- og Hánefsstaðarveg á flutningsleiðum.
Vetrarþjónusta var aukin dagana fyrir, um og eftir skriðuföllin. Reglubundinni þjónustu verður haldið uppi meðan ástand telst í jafnvægi. Ef aðstæður krefjast verður þjónusta Vegagerðarinnar aukin í samstarfi við lögreglu og almannavarnir.
Seyðisfjarðarvegur er mokaður alla daga og er með þjónustu samkvæmt vetrarþjónustuflokki 2, þ.e.a.s. varasamir staðir eru hálkuvarðir í hálku og flughálku en aðrir hlutar vegarins í flughálku. Þjónustutími er virka daga frá 6:30-22 og um helgar frá 7-21:30.
Farið verður yfir aðstæður með heimamönnum nú þegar hægt er að gera sér betur grein fyrir aðstæðum arðandi þörf á stækkun á ræsum.
Náttúruhamfaratrygging Íslands
Náttúruhamfaratrygging Íslands