Réttindi vegna veikinda á meðgöngu og í tengslum við fæðingu
Móðir getur átt rétt á lengingu fæðingarorlofs eða auknum fæðingarstyrk ef hún getur ekki sinnt vinnu eða námi á meðgöngu af heilsufarsástæðum eða ef hún getur ekki sinnt barninu vegna veikinda.
Allir verðandi foreldrar mega byrja í fæðingarorlofi mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns.
Þungaðar konur sem verða óvinnufærar á meðgöngu geta átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum í allt að tvo mánuði á meðgöngu.
Veikindi móður á meðgöngu
Veikindi móður í yfir 25% vinnu
Þunguð kona sem þarf að hætta að vinna af heilsufarsástæðum meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns á rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma, þó aldrei lengur en 2 mánuði.
Þessi heimild til lengingar fellur þó niður ef barnið fæðist fyrir áætlaðan fæðingadag, þar sem þá er reiknað með að eiginleg orlofsstaka móður hefjist.
Veikindi móður í námi
Þunguð kona í námi á rétt á fæðingarstyrk þó hún uppfylli ekki kröfur um námsframvindu eða ástundun, hafi hún ekki getað stundað nám sitt vegna heilsufarsástæðna.
Skilgreining á heilsufarsástæðum:
Sjúkdómar sem koma upp vegna meðgöngu og valda óvinnufærni.
Tímabundnir eða langvarandi sjúkdómar sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni
Fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða vernda heilsu fósturs.
Mikilvægt er að læknir rökstyðji þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi eða áhrif á námsframvindu samkvæmt einhverjum þessara liða og að niðurstaða læknisskoðunar komi fram.
Umsókn um lengingu fæðingarorlofs/fæðingarstyrks
Vegna fæðingarorlofs (fyrir mæður á innlendum vinnumarkaði):
Vottorð um væntanlegan fæðingardag (fæst hjá ljósmóður)
Tveir síðustu launaseðlar
Læknisvottorð vegna veikinda móður (sjá form hér að neðan)
Starfslokavottorð vegna veikinda móður
Hér má nálgast staðlað form læknisvottorðs: Vottorð vegna veikinda móður (DOC) Medical certificate for maternity leave due to disease of mother (English version - DOC)
Vegna fæðingarstyrks (fyrir mæður í námi):
Læknisvottorð vegna veikinda móður (sjá form hér að neðan)
Staðfesting frá skóla um að móðir hafi verið skráð í fullt nám
Hér má nálgast staðlað form læknisvottorðs: Vottorð vegna veikinda móður í námi (DOC) Medical certificate for adequate educational performance and/or sufficient progress of studies (English version - DOC)
Veikindi móður í tengslum við fæðingu
Ef móðir er ófær um að annast barn sitt á orlofstímanum vegna alvarlegra veikinda í kjölfar fæðingar, er heimilt að framlengja fæðingarorlof hennar eða fæðingarstyrk um allt að 2 mánuði.
Sjóðnum þarf að berast vottorð vegna veikinda móður þar sem kemur fram:
að veikindin megi rekja til sjálfrar fæðingarinnar
að móðirin hafi verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna
niðurstaða læknisskoðunar
Hér má nálgast staðlað form læknisvottorðs fyrir móður á innlendum vinnumarkaði: Vottorð vegna veikinda móður (DOC) Medical certificate for maternity leave due to disease of mother (English version - DOC)
Hér má nálgast staðlað form læknisvottorðs fyrir móður í námi: Vottorð vegna veikinda móður (DOC) Medical certificate for maternity leave due to disease of mother (English version - DOC)
Öryggi og heilbrigði á vinnustöðum
Ef öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega fætt barn eða er með barn á brjósti er í hættu samkvæmt sérstöku mati, skal vinnuveitandi gera ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að:
breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar
fela henni önnur verkefni
veita henni leyfi frá störfum í þann tíma sem það telst nauðsynlegt til að vernda öryggi hennar og heilbrigði
Breytingar á vinnuskilyrðum eða vinnutíma skulu ekki hafa áhrifa á launakjör til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi.
Að veita þungaðri konu leyfi frá störfum af öryggisástæðum
Ef veita þarf þungaðri konu leyfi frá störfum gæti hún átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Það á bara við um konur sem teljast starfsmenn í skilningi laga um fæðingarorlof.
Gögn sem þurfa að berast sjóðnum:
Vottorð um væntanlegan fæðingardag (fæst hjá ljósmóður)
Tveir síðustu launaseðlar
Vottorð og rökstuðningur vinnuveitanda á því að veita þungaðri konu leyfi frá störfum af öryggisástæðum.
Fyrir vinnuveitendur: