Sveitarfélög geti haldið tilraunakosningar með haustinu

11.6.2014

Undir lok síðasta árs var gengið frá samkomulagi á milli Scytl og Þjóðskrár Íslands  um að nota kosningakerfi Scytl í framkvæmd tveggja tilraunakosninga. Af því tilefni var boðað til kynningarfundar fyrir sveitarfélög þann 5. febrúar sl. Vel var mætt á fundinn og var hann einnig sendur út beint á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á fundinum fengu fulltrúar sveitarfélaga kynningu á þeim möguleika að halda íbúakosningar með rafrænum hætti. Miðað var við að hægt væri að halda tilraunakosningar í apríl þar sem bæði ólíklegt og óheppilegt væri fyrir sveitarfélögin að bera upp mál í íbúakosningum nálægt sveitarstjórnarkosningunum, þannig að það var því strax ljóst að mjög stuttur tími væri til stefnu.

Eftir febrúarfundinn óskuðu tvö sveitarfélög, Akraneskaupstaður og Rangárþing ytra, eftir að taka þátt í verkefninu. Þá var komið fast að mánaðamótum febrúar/mars og á þeim tímapunkti var ýmislegt eftir til frekari útfærslu, m.a. að ganga frá þeim málum sem bera átti undir íbúa og hvernig þau yrðu sett fram. Tók það ferli lengri tíma en vonir stóðu til og eftir því sem leið á marsmánuð var ljóst að ekki næðist að halda tilraunakosningar tímanlega svo að þær sköruðust ekki við sveitarstjórnarkosningar. Rangárþing ytra fór þess á leit við innanríkisráðherra að heimila sveitarfélaginu að halda íbúakosningar eingöngu með rafrænum hætti en þeirri beiðni var hafnað af ráðherra á þeim forsendum að ekki væri eining innan sveitarstjórnar um málefni. Samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnalaga er það ráðherra sem heimilar að íbúakosning geti farið fram eingöngu rafrænt.

Tæknileg uppsetning

Um miðjan febrúar var hafist handa við að undirbúa kerfið. Sú útgáfa af kosningakerfi Scytl sem notuð verður í tilraunakosningunum ber heitið PNYX og verður kerfið sett upp hjá Þjóðskrá Íslands. Þar sem lagt var upp með að hafa kerfið tilbúið í apríl, ef tækifæri hefði gefist á framkvæmd tilraunakosninga, var unnið hratt að því að tengja auðkenningarkerfi Ísland.is við kosningakerfið. Þegar það lá fyrir að undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar væri að ná yfirhöndinni hjá sveitarfélögum, kjörstjórnum o.fl. var hægt lítillega á ferðinni, tæknimenn héldu þó áfram að vinna að uppsetningu og tengingum í samstarfi við Scytl og búast má við að tilraunaumhverfi verði tilbúið innan skamms.

Aðgengi að kóða

Rætt hefur verið um mikilvægi þess að kóði kosningakerfisins sé aðgengilegur til rýni, m.a. með það að markmiði að stuðla að gagnsæi og auka traust. Í samningi Þjóðskrár Íslands um notkun á kosningakerfi Scytl í tvennum tilraunakosningum er Þjóðskrá Íslands veittur aðgangur að frumkóða kerfisins ásamt heimild til að afhenda óháðum úttektaraðilum frumkóða til rýni. Í þeim tilraunakosningum sem framundan eru rýnir óháður íslenskur úttektaraðili frumkóðann og tekur út lykilþætti kerfisins.

Í fyrstu kynningum á verkefninu kom fram að kóðinn yrði öllum aðgengilegur á netinu en við nánari athugun er Þjóðskrá Íslands það ekki heimilt. Eðlilegt er að skoða hvort gera eigi slíka kröfu til framtíðar en þá þyrfti að semja sérstaklega um birtingu kóðans í þessum tilgangi.

Næstu skref

Þjóðskrá Íslands, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga býður fljótlega til kynningarfundar þar sem nýjum kjörnum fulltrúum sveitarfélaga gefst kostur á að kynna sér kerfið og þá valkosti sem sveitarfélögum standa til boða í þessum efnum. Æskilegt er að stefna að því að sveitarfélög geti haldið tilraunakosningar með haustinu en til þess þurfa auðvitað að liggja til grundvallar áhugaverð mál sem ætlað er að bera upp í sveitarfélögum.