Um verkefnið

Aðdraganda þessa verkefnis má rekja til breytinga sem gerðar voru á sveitarstjórnarlögum og tóku gildi í júní 2013. Með breytingunum var greitt fyrir því að íbúakosningar í sveitarfélögum yrði hægt að halda rafrænt. Þjóðskrá Íslands var falið að þróa og reka íbúakosningakerfi sem notað yrði við rafrænar íbúakosningar sveitarfélaga. Samhliða þessum breytingum var skipuð ráðgjafanefnd um framkvæmd rafrænna íbúakosninga. Nefndin hafði fyrst og fremst það hlutverk að staðfesta val Þjóðskrár Íslands á kosningakerfi. Nefndin er einnig innanríkisráðherra til ráðgjafar og kemur til með að fylgjast með framkvæmd rafrænna íbúakosninga með það að markmiði að draga af þeim lærdóm.

Val á kerfi

Þjóðskrá Íslands kynnti sér stöðu rafrænna kosninga hjá nokkrum þjóðum sem hafa getið sér gott orð á því sviði og kom þá fljótt í ljós að Norðmenn eru í fremstu röð í þessum efnum. Norðmenn höfðu verið í samstarfi við spænskt fyrirtæki og í ljósi jákvæðrar reynslu Norðmanna af kerfinu var ákveðið að leita eftir samstarfi við fyrirtækið og hefur nú verið gengið frá samningi um aðlögun og afnot Þjóðskrár Íslands af kosningakerfi Scytl og framkvæmd tvennra íbúakosninga í tilraunaskyni.

Tæknileg uppsetning

Um miðjan febrúar 2014 var hafist handa við að undirbúa kerfið. Sú útgáfa af kosningakerfi Scytl sem notuð verður í tilraunakosningunum ber heitið PNYX og verður kerfið sett upp hjá Þjóðskrá Íslands.

Tilraunakosningar 2015

Eins og gefur að skilja var mikið að gera hjá sveitarstjórnarmönnum í kringum sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2014. Þjóðskrá Íslands, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga bauð til kynningarfundar þar sem nýjum kjörnum fulltrúum sveitarfélaga gafst kostur á að kynna sér kerfið og þá valkosti sem sveitarfélögum stóðu til boða í þessum efnum. Tilraunakosningar fóru fram í Ölfusi vorið 2015 og í Reykjanesbæ haustið 2015.