Spurt og svarað

Af hverju ætti ég að fá mér rafræn skilríki?

  • Fullgild rafræn skilríki eru framtíðin í öruggum rafrænum samskiptum við hið opinbera og atvinnulífið. Þegar er gerð krafa um beitingu þeirra í ákveðnum tilfellum, s.s. til að samþykkja leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána.  

Hvar fæ ég rafræn skilríki?

  • Í bönkum, sparisjóðum og hjá Auðkenni. Hægt er að fá rafræn skilríki í síma og á kort. Ef þú ætlar að útvega rafræn skilríki á síma kannarðu hvort símkortið þitt styður rafræn skilríki. Ef ekki getur þú útvegað slíkt kort hjá þínu símafyrirtæki. Þú ferð svo í banka, sparisjóð eða til Auðkennis og færð rafræn skilríki þar.
  • Þegar sótt er um rafræn skilríki þarf ávallt að hafa með gilt ökuskírteini, vegabréf eða nafnskírteini með mynd. Þú þarft líka að velja eitt 4-8 stafa PIN númer sem þú stimplar svo inn í hvert sinn sem þú notar rafrænu skilríkin þín.

Hvar nota ég rafræn skilríki?

  • Þú getur notað rafræn skilríki hjá öllum þeim sem bjóða upp á innskráningu hjá innskráningarþjónustu Ísland.is. Auk þess er hægt að nota rafræn skilríki til innskráningar hjá fjölmörgum öðrum  aðilum t.d. RSK, tryggingarfélögum og öllum bönkum og sparisjóðum.

Á hverju byggja rafræn skilríki?

  • Rafræn skilríki byggja á svokallaðri Íslandsrót sem er í eigu og umsjá ríkisins. Ríkið gefur ekki út skilríki til einstaklinga, en setur ströng skilyrði um útgáfuna. Aðilar sem gefa út eða hyggjast gefa út skilríki til einstaklinga á Íslandi eru undir opinberu eftirliti Neytendastofu.
  • Með ströngum kröfum og eign sinni á Íslandsrót hefur ríkið fulla stjórn á umhverfi skilríkjanna og ber ábyrgð á þeirri grunngerð sem þau eru byggð á.