Um leyfisveitingagátt

Leyfisveitingagátt er ætluð til þess að auðkenndir einstaklingar og lögaðilar geti sótt um leyfi til hvers kyns atvinnurekstrar í öruggu umhverfi. Nauðsynleg gögn frá öðrum stofnunum eru sótt af gáttinni og umsækjanda þannig spöruð sporin. Umsækjandi fylgist síðan með ferli umsókna á einum stað. Umsagnaraðilar og leyfisveitendur hafa einnig aðgang að gáttinni varðandi þeirra þátt.

Það fyrsta sem boðið er upp á að gera í leyfisveitingagáttinni er að senda inn tilkynningu um útleigu fasteignar í heimagistingu 2017, en sýslumaður tekur afstöðu til þeirrar tilkynningar.

Almennt markmið með leyfisveitingagátt er að einfalda ferli við að afla leyfa til að stofna til atvinnurekstrar á Íslandi. Ein gátt sparar tíma, fyrirhöfn og kostnað ásamt því að flýta fyrir afgreiðslu.
Tilgangur leyfisveitingagáttar er þríþættur:

  1. Að auðvelda þeim sem sækja um leyfi alla umsýslu og meðferð fylgigagna. „One-stop-shop“.
  2. Að veita umsagnaraðilum yfirsýn yfir útistandandi umsagnarbeiðnir, aðgang að gögnum og aðgang að frágangi umsagna.
  3. Að skapa vettvang þar sem leyfisveitandi hefur aðgang að öllu sem varðar umsóknir og getur þannig afgreitt þær hratt og örugglega. Leyfisveitandi getur haft frekari samskipti við umsækjendur og umsagnaraðila ef með þarf.

Verkefnið hefur verið fjármagnað af íslenska upplýsingasamfélaginu og forsætisráðuneyti.