Leyfi til innflutnings áfengis
Umsókn um leyfi til framleiðslu, innflutnings eða heildsölu áfengis
Skilyrði
Til að fá leyfi til innflutnings á áfengi þarf viðkomandi að stunda innflutning áfengra drykkja í atvinnuskyni eða hafa leyfi til tollfrjálsrar verslunar.
Umsækjandi þarf einnig að:
Hafa tilkynnt ríkisskattstjóra um atvinnustarfsemi sína og verið færður á fyrirtækjaskrá.
Hafa tilkynnt ríkisskattstjóra um starfsemina samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.
Ef umsækjandi er einstaklingur þá þarf hann að vera orðinn 20 ára.
Ef umsækjandi er félag með ótakmarkaða ábyrgð þurfa eigendur og framkvæmdastjóri félagsins að vera orðnir 20 ára.
Ef umsækjandi er félag með takmarkaða ábyrgð þurfa allir stjórnarmenn og framkvæmdastjóri félagsins að vera orðnir 20 ára.
Gildistími
Innflutningsleyfi sem gefið er út til umsækjanda í fyrsta sinn gildir í eitt ár.
Ef leyfið er endurnýjað er gildistími þess ótímabundinn.
Kostnaður
Útgáfa innflutningsleyfis kostar 32.000 krónur.
Umsóknarferli
Sækja þarf um innflutningsleyfi til sýslumanns í því umdæmi sem starfsemin á að fara fram.
Útgefin leyfi eru bundin við nafn og kennitölu leyfishafa. Sækja þarf um nýtt leyfi ef:
nýr aðili tekur við rekstrinum
starfsemin er flutt í annað húsnæði
Ef flytja á starfsemina í annað umdæmi þarf að sækja um nýtt leyfi til sýslumanns í því umdæmi.
Fylgigögn
Vottorð fyrirtækjaskrár (ef umsækjandi er lögaðili)
Staðfest VSK númer
Afrit af iðnaðarleyfi
Afrit af starfsleyfi heilbrigðisnefndar
Reglur og refsingar
Ef leyfishafi vanrækir skyldur sínar eða uppfyllir ekki þau skilyrði sem gilda um reksturinn veitir sýslumaður honum skriflega áminningu.
Áminningin gildir í tvö ár og verði leyfishafi uppvís að frekari vanrækslu á meðan áminningin er í gildi verður hann sviptur leyfinu um ákveðinn tíma.
Brot á áfengislögum og -reglum varða sektum eða fangelsi í allt að sex ár.
Lögreglustjórar í hverju umdæmi hafa eftirlit með starfsemi leyfishafa ásamt ríkisskattstjóra og tollstjóra.
Lög og reglugerðir
Reglugerð um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni nr. 828/2005
Lög um verslunaratvinnu nr. 28/1998
Áfengislög nr. 75/1998
Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007
Umsókn um leyfi til framleiðslu, innflutnings eða heildsölu áfengis
Þjónustuaðili
Sýslumenn