Fara beint í efnið

Leiga íbúðarhúsnæðis

Leigusamningar segja til um rétt og skyldur leigjenda og leigusala. Án samnings er staða beggja aðila gagnvart lögum ótrygg.

Leigusala og leigutaka er frjálst að semja um leiguupphæð en samkvæmt lögum skal upphæðin vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila.

Allar upplýsingar um réttindi og skyldur varðandi húsaleigu má finna á vef leigjendaaðstoðar Neytendasamtakanna.

Leigusamningar

Leigusamningar ættu að vera skriflegir og undirritaðir af bæði leigusala og leigjenda (eða umboðsaðila). Mælt er með að gera rafrænan leigusamning og skrá í Leiguskrá.

Leigusamningar geta verið ótímabundnir eða til ákveðins tíma. Mismunandi reglur gilda um lok leigusamnings eftir því hvort hann sé tímabundinn eða ótímabundinn.

Leigulok

Gott að hafa í huga:

  • Ef húsnæðið er áfram til leigu hefur leigjandi forgangsrétt til leigu í að minnsta kosti eitt ár eftir að umsömdum leigutíma lýkur (á þessu eru þó undantekningar).

  • Leigjandi má einungis taka með sér fastar innréttingar og annað þess háttar sem hann hefur sjálfur greitt fyrir.

  • Leigusali má ráðstafa tryggingafé til greiðslu á vangoldinni leigu.

Uppsögn

Báðir aðilar geta sagt upp ótímabundnum leigusamningi. Uppsagnarfrestur er mislangur eftir tegund húsnæðis og lengd leigutímans. Best er að gera það skriflega og með sannanlegum hætti, til dæmis með tölvupósti eða ábyrgðarbréfi.

Undir venjulegum kringumstæðum er ekki hægt að segja upp tímabundnum leigusamningi áður en hann rennur út.

Sjá nánar á vef leigjendaaðstoðarinnar.

Húsaleigumál

Margs konar upplýsingar um leigumarkaðinn má finna á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þar má meðal annars finna mánaðar- og ársskýrslur um leiguverð og leigumarkaðskannanir.

Leiguhúsnæði má finna á skrá hjá ýmsum leigumiðlunum á vefnum og í auglýsingum fjölmiðla.

Félagslegt húsnæði

Sum sveitarfélög hafa almennar leiguíbúðir til útleigu auk félagslegra leiguíbúða. Úthlutun félagslegra íbúða ræðst af fjölskylduhögum, félagslegum aðstæðum og að tekjur og eignir séu innan ákveðinna marka. Hafðu samband við þitt sveitarfélag til að fá ráðleggingar um félagslegt húsnæði.

Húsnæðisbætur

Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur ætlaðar til þess að aðstoða fólk sem leigir íbúðarhúsnæði. Til að eiga möguleika á húsnæðisbótum þarf leigusamningur að vera skráður rafrænt í Leiguskrá HMS.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Sveitarfélögin veita sérstakan húsnæðisstuðning í viðbót við húsnæðisbætur til fólks sem býr við erfiðar fjárhagslegar eða félagslegar aðstæður. Þú þarft að leita til þess sveitarfélags sem þú átt lögheimili í til að fá frekari upplýsingar um rétt þinn til sérstakra húsnæðisbóta.

Leigutekjur

Leigutekjur eru skattskyldar. Ef leigusamningur er skráður í Leiguskrá HMS eru leigutekjurnar forskráðar á skattframtal. Ef leigusali er einstaklingur skattleggjast þær sem fjármagnstekjur, annars eins og aðrar atvinnutekjur. Sjá nánar hjá Skattinum.

Ágreiningur

Komi upp ágreiningur á milli leigjenda og leigusala við gerð, framkvæmd eða lok leigusamnings er hægt að vísa málinu til kærunefndar húsamála, aðilum málsins að kostnaðarlausu.

Leigusamningur á pappírsformi

Ertu ekki með rafræn skilríki? Þá geturðu sótt leigusamning til útprentunar:

Hagsmunasamtök

Sýnishorn af tilkynningum samningsaðila

Lög og reglur