Fjölskylda og velferð
Hjúkrunarheimili aldraðra
Áður en óskað er eftir dvöl á hjúkrunarheimili þarf að fara fram færni- og heilsumat á aðstæðum umsækjanda. Plássi á hjúkrunarheimili er ekki úthlutað fyrr en útséð er með önnur úrræði.
Færni- og heilsumat
Telji hinn aldraði eða aðstandendur hans tímabært að sækja um dvöl á hjúkrunarheimili þarf fyrst að sækja um færni- og heilsumat.
Færni- og heilsumatsnefndir eru sjö og starfa í hverju heilbrigðisumdæmi landsins.
Beiðni um mat á að senda til færni- og heilsumatsnefndar í því umdæmi sem umsækjandi á lögheimili í.
Embætti landlæknis gefur út sérstakt umsóknareyðublað um færni- og heilsumat er að finna á en starfsfólk heilbrigðisþjónustu getur útvegað eyðublaðið sé þess óskað.
Þegar umsókn berst færni- og heilsumatsnefnd er aflað ýmissa gagna sem þarf til að skera úr um þörf umsækjandans fyrir dvöl á hjúkrunarheimili.
Afgreiðsla umsóknar tekur fjórar vikur. Niðurstöður eru sendar til umsækjanda og afrit til heimilislæknis, heimahjúkrunar og félagsþjónustu.
Sé umsókn hafnað er umsækjanda bent á önnur úrræði.
Sé umsókn samþykkt er sótt um dvöl á hjúkrunarheimili.
Færni- og heilsumat gildir í 12 mánuði. Hafi umsækjandi ekki fengið dvalarstað að þeim tíma liðnum er honum gert viðvart um að meta þurfi þörf hans að nýju.
Sé umsækjandi ósáttur við afgreiðslu færni- og heilsumatsnefndar má vísa málinu til velferðarráðherra.
Aldraðir og aðstandendur þeirra geta fengið ráðgjöf um færni- og heilsumat og aðra kosti sem þeim standa til boða hjá fagfólki í heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sveitarfélaga.
Dvalarumsókn
Þegar svar berst umsækjanda um að færni- og heilsumat hafi verið samþykkt fylgir svarbréfinu umsókn um vist á hjúkrunarheimili. Umsóknina á að senda útfyllta til færni- og heilsumatsnefndar.
Heimilt er að sækja um dvöl hvar sem er á landinu.
Þegar pláss losnar á einhverju þeirra heimila sem hinn aldraði kýs að dveljast á er valið á milli tveggja umsækjanda sem eru í mestri þörf.
Val á hjúkrunarheimili
Hjúkrunarheimilin veita sjálf upplýsingar um starfsemi sína og aðbúnað heimilisfólks. Þá hafa mörg heimilanna vef eða hafa gefið út bæklinga þar sem má kynna sér aðstæður.
Fagfólk í heilbrigðisþjónustu getur veitt ráðgjöf um heimili sem völ er á og helst koma til greina í tilviki hvers og eins.