Fara beint í efnið

Foreldrar öðlast rétt til greiðslna í fæðingarorlofi hafi þeir unnið á innlendum vinnumarkaði samfellt í 6 mánuði fyrir fæðingardag barns. Starfshlutfall í hverjum mánuði þarf að vera að lágmarki 25%. Uppfylli foreldri ekki þessar kröfur getur það kannað rétt sinn til fæðingarstyrks

Mat á starfshlutfalli

  • 86–172 vinnustundir í mánuði jafngilda 50–100% starfi

  • 43–85 vinnustundir í mánuði jafngilda 25–49% starfi

Sé foreldri ekki í sama starfshlutfalli á 6 mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns skal miða við meðaltal starfshlutfalls yfir tímabilið. 

Áhrif bóta, dagpeninga og orlofslauna á tímabilinu

Eftirfarandi greiðslur á tímabilinu gilda til jafns við launagreiðslur við mat á starfshlutfalli:

  • Atvinnuleysisbætur

  • Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna annars barns

  • Sjúkra- og slysadagpeningar

  • Greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags

  • Bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns

  • Tekjutengdar greiðslur skv. III kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna

Starfshlutfallið byggist þá á sama hlutfalli og greiðslurnar miðuðu við.

Mat á starfshlutfalli sjálfstætt starfandi, daggæslufólks og maka bónda

  • Sjálfstætt starfandi einstaklingur er sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, og stendur reglulega skil á tryggingagjaldi samkvæmt ákvörðun skattayfirvalda. Fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings miðast við að hann hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein. 

  • Gæsla barna í heimahúsi samsvarar fjórðungi úr fullu starfi fyrir hvert barn, eða 43 vinnustundum á mánuði skv. reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum. 

  • Maki bónda á búi fær metið vinnuframlag að lágmarki 50% af starfshlutfalli bóndans þegar makinn er hvorki formlega skráður sem aðili að búrekstri né starfar utan búsins. 

Hvað telst til vinnu á innlendum vinnumarkaði?

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er kveðið á um nokkur tilvik sem teljast jafnframt til þátttöku á innlendum vinnumarkaði:

Í 2. mgr. 22. gr. ffl. kemur fram að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði telst enn fremur:

  • a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti (á bara við um starfsmenn),

  • b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

  • c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

  • d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

  • e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 2. mgr. 21. gr. ffl. er fjallað um stöðu foreldra sem koma af EES svæðinu en þar segir m.a.:

  • Þegar foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabilinu skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila þess sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningum um almannatryggingar, stofnanasamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Skilyrði er að foreldri hafi hafið störf á innlendum vinnumarkaði innan tíu virkra daga frá því að það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í öðru Norðurlandaríki, í öðru EFTA-ríki eða í Færeyjum. Foreldri skal láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

  • Misjafnt er milli landa hvort viðkomandi tryggingastofnun í landinu gefi út slíkt vottorð til foreldris eða hvort foreldrið þurfi að leita til Sjúkratrygginga Íslands með að fá slíkt vottorð. Ef foreldri þarf að leita til Sjúkratrygginga Íslands senda Sjúkratryggingar Íslands S040 vottorð til viðkomandi tryggingastofnunar í EES-ríkinu sem svarar með S041 vottorði sem er jafnframt það vottorð sem berast þarf Fæðingarorlofssjóði.

  • Til að staðfesta hvenær foreldri hóf störf á Íslandi skal skila ráðningarsamningi eða staðfestingu frá skattyfirvöldum um að foreldri hafi skráð starfsemi sína hjá þeim lögum samkvæmt.

Stafræn umsókn um fæðingarorlof

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun