Þjónustutilskipunin

Þann 10. júní 2011 samþykkti Alþingi lög um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins (mál nr. 645 – lög númer 76/2011). Með lögunum er verið að innleiða efnisreglur tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123 frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum, svokallaða þjónustutilskipun.

Í lögunum er m.a. að finna reglur er lúta að aðgengi að þjónustu, kröfum til skjalagerðar, rétti til upplýsinga, skilyrði fyrir veitingu leyfa, gildistíma leyfa og málsmeðferð við leyfisveitingar.

Samkvæmt 4. gr. laganna  eiga þjónustuveitendur að geta sótt um leyfi til að stunda starfsemi sína með rafrænum hætti og fengið rafræn svör frá leyfisveitendum. Á það við um öll nauðsynleg formsatriði og það ferli er lýtur að leyfisveitingum. Í 6. gr. laganna er síðan að finna upptalningu á því hvaða upplýsingar skulu vera aðgengilegar þjónustuveitendum og viðtakendum þjónustu með rafrænum hætti.

Í samræmi við 4. gr. laganna hefur verið komið á fót þjónustugátt (point of single contact/EUGO þjónustugáttir Evrópu) undir merkjum upplýsinga- og þjónustuveitunnar Ísland.is. Hér er að finna upplýsingar um öll þau leyfi sem falla undir gildissvið laganna ásamt umsóknareyðublöðum sem hægt er að senda inn rafrænt til viðkomandi leyfisveitanda. Upplýsingar á þjónustugáttinni og umsóknareyðublöðin eru bæði á íslensku og ensku.

Umsóknareyðublöð eru send í gegnum netskil (rafræn skjalaskil) á Ísland.is. Þjónustuveitendur verða að auðkenna sig og eru ýmsar leiðir til þess. Á íslenska hlutanum er boðið upp á rafræn skilríki og Íslykil. Á enska hlutanum er boðið upp á veflykil ríkisskattstjóra og skráningu í gegnum tölvupóst. Að lokinni auðkenningu geta þjónustuveitendur síðan  hlaðið upp umsóknareyðublaði ásamt fylgiskjölum. Sendingin berst þannig til viðkomandi leyfisveitanda.

Hér finnur þú leyfin/umsóknareyðublöð sem heyra undir þjónustutilskipunina.

Lögin í heild sinni má nálgast á vef alþingis

Þjónustugáttin var þróuð í forsætisráðuneytinu í samvinnu við efnahags- og viðskiptaráðuneytið, en fluttist til Þjóðskrár Íslands áramót 2010 - 2011.

Hafðu samband

Hægt er að hafa samband með því að senda póst á island@island.is

Vert að skoða