Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Andlát forsjárforeldris

Ef foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns við andlát annars þeirra fer eftirlifandi foreldri áfram með forsjá barnsins eftir andlát hins. Þetta á við hvort sem foreldrar eru í hjúskap, skráðri sambúð eða fara saman með forsjá barns án þess að búa saman.

Ef foreldri deyr, sem farið hefur eitt með forsjá barns síns, færist forsjá barnsins sjálfkrafa til eftirlifandi foreldris við andlát forsjárforeldrisins.

Ef þannig háttar til að kynforeldri, sem farið hefur eitt með forsjá barns síns, hefur samið við stjúpforeldri barnsins um sameiginlega forsjá, og kynforeldrið deyr, þá helst forsjá barnsins sjálfkrafa hjá stjúpforeldrinu eftir andlát kynforeldrisins.

Framangreindar reglur eru meginreglur. Það er hægt, með samningi eða dómi að fela öðrum forsjá barns ef það er talið barni fyrir bestu. Þannig getur til dæmis forsjárlaust foreldri óskað eftir að fá forsjá barns síns í þeim tilvikum þegar forsjá verður sjálfkrafa í höndum stjúpforeldris eftir andlát foreldris. Um þetta er því hægt að semja eða, ef ekki vill betur, fá úrlausn dómara.

Þá ber að geta þess að forsjárforeldri eða forsjárforeldrar geta, með skriflegri og staðfestri yfirlýsingu, ákveðið hverjir skuli fara með forsjá barns þeirra eftir andlát þeirra Ef foreldrarnir undirrita slíka yfirlýsingu skal fara eftir því sem þeir ákveða – nema annað þyki barni fyrir bestu. Breyting á forsjá barns, við fráfall forsjárforeldris í samræmi við óskir foreldris samkvæmt framansögðu, verður annað hvort gerð með samningi, milli þess aðila sem fær forsjá barns sjálfkrafa og hins sem forsjárforeldri hefur ákveðið að forsjá skuli falla til, eða með dómi.

Ef barn verður forsjárlaust vegna andláts forsjárforeldris eða foreldra færist forsjá þess sjálfkrafa til barnaverndarnefndar.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn