Fara beint í efnið

Áherslur Stafræns Íslands

Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum stjórnvalda og unnið er að því markmiði að stafræn samskipti verði megin samskiptaleið almennings við hið opinbera.

Verkefnastofa um stafrænt Ísland, sem starfar á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, hefur það hlutverk að tryggja markmið ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki. Verkefnastofan vinnur með ráðuneytum, stofnunum og öðrum opinberum aðilum að því að efla stafræna þjónustu við almenning og tryggja þannig skýr, einföld og hraðvirk samskipti.

Helstu áherslusvið Stafræns Íslands eru:

  • Stafræn samskipti við almenning: Setja í loftið nýjan vef Ísland.is og stórefla stafræna þjónustu með nýrri ásýnd, léttara vörumerki í takt við tímann og framúrskarandi þjónustuupplifun.

  • Sjálfsafgreiðsla: Allir ferlar hins opinbera verði aðgengilegir í gegnum miðlæga þjónustugátt Ísland.is í sjálfsafgreiðslu innan þriggja ára.

  • Stafrænir innviðir: Innleiðing og virkjun gagnaþjónustulagsins Straumsins (X-Road), að fyrirmynd Eistlands og Finnlands, til að samræma vefþjónustur og gagnaflutningslag hins opinbera með opnum hugbúnaði.

Áætlað er að á næstu þremur til fimm árum geti ríkið sparað um 9,6 milljarða á ári í kjölfar innleiðingar á stafrænni þjónustu. Þjóðhagslegur ávinningur felur þó í sér enn meiri hagræðingu því bæði einstaklingar og fyrirtæki munu upplifa mikinn tímasparnað og einföldun í samskiptum sínum við hið opinbera, auk þess sem innleiðingin hefur jákvæð umhverfisleg áhrif. Sem dæmi má nefna að frá 1. maí 2020 munu stofnanir ríkisins senda alla reikninga rafrænt, sem mun spara um 200 milljónir árlega í prentkostnað og sendingargjöld.