Fara beint í efnið

Aðilar sem veita ráðgjöf til neytenda

Neytendur eiga kost á margvíslegri ráðgjöf og aðstoð frá ýmsum aðilum.

Hver gerir hvað?

Hver er munurinn á Neytendastofu og Neytendasamtökunum?

Neytendastofa er stjórnsýslustofnun sem fylgist með verðmerkingum, hefur eftirlit með auglýsingum, neytenda- og fasteignalánum, pakkaferðum, neytendassamningum o.fl. Tekið er við ábendingum ef fyrirtæki uppfylla ekki skyldur samkvæmt þeim lögum sem stofnunin hefur eftirlit með að sé framfylgt.

Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem vinna að ýmsum hagsmunamálum neytenda eins og samtökin ákveða sjálfstætt og óháð lögum. Þau reka einnig leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu fyrir almenning.

Neytendaráðgjöf

Félag íslenskra bifreiðaeigenda veitir félagsmönnum upplýsingar, leiðbeiningar og aðstoð vegna bifreiðaeignar, viðskipta og þjónustu.

Leigjendaaðstoðin er rekin af Neytendasamtökunum fyrir leigjendur íbúðarhúsnæðis samkvæmt samningi við félagsmálaráðuneytið. Leigusalar geta einnig leitað til þjónustunnar og er hún leigjendum og leigusölum að kostnaðarlausu. 

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum og leitast við að leiðbeina neytendum um úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum, meðal annars hvaða aðili eða aðilar fara með úrskurðarvald eða dómsvald í málum þeirra.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga tekur á móti kvörtunum vegna ástands matvæla, merkinga á vörum, umgengni á opinberum stöðum, hávaða eða óþrifnaðar í umhverfinu. Snúið ykkur til skrifstofu viðkomandi sveitarfélags.

Húseigendafélagið veitir félagsmönnum upplýsingar um eign, rekstur og leigu húsnæðis.

Húsnæðisnefndir sveitarfélaga veita almennar upplýsingar og ráðgjöf um húsnæðismál og húsaleigusamninga.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitir upplýsingar um kærunefndir fjöleignarhúsa og húsaleigumála og endurgjaldslausa ráðgjöf fyrir fólk í húsnæðis- og greiðsluerfiðleikum. Þar er einnig eftirlit með vöruöryggi og löggildingu mæla.

Leiðbeiningastöð heimilanna veitir ráð og leiðbeiningar við heimilishald, heimilisstörf og kaup á heimilistækjum. Opið mánudaga og þriðjudaga kl. 10–14 og fimmtudaga og föstudaga kl. 14–17. 

Lyfjastofnun- þangað má leita með mál vegna lyfja s.s. aukaverkanir, auglýsingar og umbúðir

Lögfræðiaðstoð Lögréttu er ókeypis ráðgjöf félags laganema í Háskólanum í Reykjavík. Lögfræðiaðstoðin er stafræk frá september til maí, fyrir utan próftíma. Einnig er þar haldinn skattadagurinn þar sem almenningur getur fengið aðstoð við gerð skattframtala.

Lögfræðiaðstoð Orators er ókeypis ráðgjöf félags lögfræðinema í Háskóla Íslands.
Starfsemin hefst í september ár hvert og stendur fram í miðjan apríl, að undanskyldum desembermánuði þar sem laganemar þreyta próf við deildina á þeim tíma.

Lögmannavaktin veitir almenningi ókeypis lögfræðiráðgjöf.

Matvælastofnun fer með yfirumsjón matvælaeftirlits. Meðal markmiða er að auka öryggi búfjárafurða og heilbrigði plantna.

Persónuvernd hefur eftirlit með framkvæmd laga um persónuupplýsingar og persónuvernd. Neytandi sem telur að ekki hafi verið unnið rétt með persónuupplýsingar um hann getur sent Persónuvernd erindi, sem úrskurðar í málinu.

Fjarskiptastofa tekur við kvörtunum frá neytendum telji þeir að fjarskiptafyrirtæki eða póstrekandi brjóti gegn skyldum sínum. Hefur einnig eftirlit með skilmálum þjónustuveitenda og verðskrá fyrir alþjónustu.

Réttarheimildarvefurinn inniheldur lögskýringargögn, alþjóðasamninga og niðurstöður alþjóðadómstóla. Opinbert safn fyrir almenning frá löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldi.

Samgöngustofa fer m.a. með eftirlit með réttindum flugfarþega. Telji neytandi að flugrekandi eða söluaðili fari ekki að lögum og reglum getur hann borið fram kvörtun eða sent ábendingu til Samgöngustofa sem tekur þær til athugunar.

Samkeppniseftirlitið á að efla virka samkeppni í viðskiptum með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.

Umboðsmaður Alþingis hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Umboðsmaður skuldara veitir fólki sem á í verulegum greiðsluerfiðleikum og komið er í þrot með fjármál sín, endurgjaldslausa ráðgjöf.

Umhverfisstofnun á að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og verndun þeirra.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir