Fara beint í efnið

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. maí 2024 -

Gildir frá: 01.03.2023

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Lögformleg staða skoðunarvottorðs

    Skoðunarstofa skal geta gefið út skoðunarvottorð fyrir það ökutæki sem það hefur skoðað reglubundinni skoðun samkvæmt skoðunarhandbók þessari, sbr. 22. gr. reglugerð um skoðun ökutækja og 8. gr. tilskipunar ESB um skoðun ökutækja. Samskonar krafa gildir einnig um aðrar tegundir skoðana. Með skoðunarvottorði sýnir skoðunar­stofa fram á að tiltekin skoðun ökutækis hafi verið framkvæmd og hver niður­staða hennar er.

    Upplýsingum sem fram koma á skoðunarvottorði skal safnað á skilvirkan og öruggan hátt á meðan á skoðun stendur. Séu þær ekki færðar beint á skoðunarvottorð verður að halda þeim til haga á annan hátt, til dæmis á pappír eða í spjaldtölvu. Yfirfærsla gagna af pappír yfir á rafrænt form skal vera örugg til að tryggja áreiðanleika þeirra upplýsinga sem fara til Sam­göngustofu og eru notuð til að gefa út staðfest eintak skoðunarvottorðs hjá skoðunar­stofu.

    Skoðunarstofa skal varðveita skoðunarvottorð í a.m.k. tvö ár. Nægilegt er fyrir skoðunarstofu að varðveita rafrænu gögnin sem fram koma í vottorðinu, enda tryggt að gögnin glatist ekki á þessum tíma og á geymslutímanum sé hægt að nálgast (eða útbúa) rétt og staðfest eintak skoðunarvottorðs.

    Upplýsingar sem koma skulu fram á skoðunarvottorði

    Eftirfarandi upplýsingar skulu alltaf koma fram á skoðunarvottorði fyrir reglubundnar skoð­anir og skulu tilteknar upplýsingar auðkenndar með samræmdum Evrópusambandskóðum (gildis­taka auðkenningarkóða er 01.07.2024):

    • Titill: Að um sé að ræða skoðunarvottorð fyrir ökutæki.

    • Skoðunarstofan: Heiti skoðunarstofu (kóði 9), skoðunarstaður (kóði 3) og auðkenni (númer) skoðunar­manns sem ber ábyrgð á skoðun ökutækisins (kóði 9).

    • Evrópuríki: Tákn skráningarríkis ökutækisins („IS“ fyrir Ísland, kóði 2).

    • Skoðunin:Tegund skoðunar, dagsetning skoðunar (kóði 3) og dagsetning næstu reglubund­innar skoðunar (eða hvenær skoðunarvottorðið rennur út) (kóði 8).

    • Ökutækið: Verksmiðjunúmer (kóði 1), númer skráningarmerkis (kóði 2), tegund ökutækis og ökutækis­flokkur (kóði 5).

    • Mengunarmæligildi: Fyrir vélknúin ökutæki, eftir því sem við á, skulu koma fram mæligildi mengunarmælingar, þ.e. CO-gildi, λ-gildi eða K-gildi. Skrá skal hærri töluna þegar tvíorku ökutæki eru mæld.

    • Hemlunarvirkni mæld í akstri: Tilgreina skal ef hemlunarvirkni ökutækis var mæld í akstri (þegar ekki var notast við hemlaprófara).

    • Akstursmælir: Núverandi staða akstursmælis (eða tímamælis) (kóði 4) sem og síðustu stöðu hans við skoðun (ef þessar upplýsingar eru tiltækar).

    • Skoðunaratriði: Finnist annmarkar við skoðun skulu þau skoðunaratriði talin upp (kóði 6), þ.e. númer, heiti, forsenda og dæming skoðunaratriðis, ásamt nánari skýringum ef þörf er á (um eðli fráviksins og/eða staðsetningu). Ekki er heimilt að nota önnur númer, heiti eða dæmingar skoðunaratriða en tilgreind eru í handbókinni.

    • Niðurstöður skoðunar: Niðurstaða skoðunar og staðlaðar skýringar ef við á (kóði 7). Ekki er heimilt að nota aðrar niðurstöður en tilgreindar eru í handbókinni.

    • Annað: Á vottorðið má skrá aðrar upplýsingar (kóði 10).

    • Undirritun vottorðs: Vottorð á pappírsformi skal undirritað af fulltrúa skoðunarstof­unnar áður en það er afhent viðskiptavini eða staðfest af skoðunarstofunni með öðrum hætti (kóði 9).

    Hafi niðurstaða skoðunar verið önnur en „Án athugasemda“ skal þessi texti (eða sambæri­legur) koma fram á vottorði fyrir reglubundnar skoðanir, eftir því sem við á:

    • Niðurstaða skoðunar 1: „Lagfæring. Innan 30 daga skal eigandi (umráða­ndi) hafa bætt úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við skoðun. Haga skal notkun öku­tækisins í samræmi við niðurstöðu skoðunar þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram.“.

    • Niðurstaða skoðunar 2: „Endurskoðun. Krafa er um að án tafar verði lagfært allt sem gerð var athugasemd við á skoðunarvottorði og ökutækið fært til endurskoðunar fyrir loka næsta mánaðar.Haga skal notkun ökutækisins í samræmi við niðurstöðu skoð­unar þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram.“.

    • Niðurstaða skoðunar 3: „Notkun bönnuð. Vélknúnu ökutæki má ekki aka með eigin vélarafli þar til ráðin hefur verið bót á annmörkunum og nýtt skoðunar­vottorð að lok­inni endurskoðun staðfestir að ökutæki sé í aksturshæfu ástandi. Þrátt fyrir notkunar­bann er heimilt að færa ökutæki með eigin vélarafli frá viðgerðarstað stystu leið til skoðunar. Þrátt fyrir notkunarbann er heimilt að færa eftirvagn þ.m.t. hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn stystu leið til viðgerðar­staðar og til skoðunar.“.

    • Hætt við skoðun: „Skoðun hafnað. Hefur verið tilkynnt til Samgöngustofu.“.

    Á öllum skoðunarvottorðum skoðunarstofunnar er æskilegt er að viðskiptavinur sé upplýstur um eftirtalin atriði á vottorði:

    • Skoðunarreglur: Upplýsingar um að farið sé eftir skoðunarhandbók ökutækja sem Samgöngustofa gefur út. Að reglubundin skoðun sé í samræmi við ESB tilskipun nr. 2014/45.

    • Viðurkenning: Upplýsingar um faggildingu skoðunarstofunnar og faggildingarnúmer (eftir því sem við á um sérhverja skoðunartegund).

    • Kvartanir: Upplýsingar um ferli mögulegra kvartana vegna skoðana hjá skoðunar­stofunni.

    • Framlenging frests: Upplýsingar um þá heimild sem í gildi er að framlengja megi frest til endurskoðunar að skilyrðum uppfylltum.

    Innihaldi vottorða fyrir aðrar skoðanir en reglubundnar skoðanir er lýst í leiðbeiningaskjölum fyrir viðkomandi skoðanir sem finna má í stoðriti.

    Afhending skoðunarvottorðs og upplýsingaskylda

    Að loknum öllum tegundum skoðana skal skoðunarstofa hafa möguleika á því að gefa út staðfest útprentað skoðunar­vottorð fyrir eiganda (umráðanda). Skoðunarstofu er heimilt að gefa út staðfest rafrænt eintak skoðunarvottorðs en það kemur ekki í stað kröfunnar um útprentað eintak, sé þess óskað af eiganda (umráðanda).

    Eigandi (umráðandi) getur afþakkað móttöku vottorðs og þarf skoðunarstofa þá ekki að prenta það út (ef verklag skoðunarstofunnar er með þeim hætti). Mælst er þó til þess að skoðunarvottorð sé ætíð prentað út ef annmarkar finnast í skoðun og vandlega sé farið yfir þá með eiganda (umráðanda). Sérstaklega er minnt á upplýsingaskyldu ef niðurstaðan er sú að notkun ökutækisins sé bönnuð, sjá kafla IX Niðurstöður skoðana.